„Flestir sem hafa náð árangri hafi farið í gegnum áföll“

Sólveig R. Gunnarsdóttir ákvað að stofna sitt eigið fyrirtæki og …
Sólveig R. Gunnarsdóttir ákvað að stofna sitt eigið fyrirtæki og sér ekki eftir því. Ljósmynd/Hekla Floka

Sólveig R. Gunnarsdóttir er 36 ára ráðgjafi sem rekur sitt eigið fyrirtæki, Sólveig ehf. Hún er einnig í hlutastarfi sem fjármálastjóri og ráðgjafi GeoSilica. Hún situr í stjórn Disact +. Sólveig er gift Karli Stephen Stock og eiga þau börnin Sophie Eik 12 ára, Charlotte Rós 7 ára og Henry Örn 6 ára.

Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?

„Ég rek mitt eigið ráðgjafafyrirtæki, Sólveig Ráðgjöf, en starfaði áður á orku- og fjármálamarkaði frá 2007. Það hefur lengi blundað í mér að verða sjálfstæð en eftir að ég var búin að beita eiginmanninn óeðlilega miklum þrýstingi að verða sjálfstæður snéri hann spurningunni að mér. Ég ráðfærði mig við nokkrar konur innan fjármálageirans sem ég leit upp til og þar fékk ég að heyra frá allt of mörgum reynsluboltum að þá hafi lengi langað að gera það en fannst þær ekki kunna nógu mikið. Þá hugsaði ég með mér að ef þeim fyndist þær ekki kunna nóg þá kæmist ég aldrei á þann stað heldur, sem fékk mig til að stökkva beint út í djúpu laugina. Án þess að hugsa mig meira um þá stofnaði ég félag, skellti upp vefsíðu og tilkynnti nýstofnað ráðgjafafyrirtækið mitt 10. desember 2019,“ segir Sólveig. 

Út á hvað gengur starfið?

„Ég veiti sérhæfða fjármálaráðgjöf til fyrirtækja, hvort sem þau standa frammi fyrir áskorunum eða tækifærum eða bæði. Ég hjálpa fyrirtækjum að leysa vandamál, vaxa inn á ný mið eða grípa tækifæri. Algengustu verkefnin sem ég tek að mér eru endurfjármögnun, fjármögnun, kaup og sala fyrirtækja eða eininga innan fyrirtækja eða jafnvel nýrra höfuðstöðva. Ég framkvæmi einnig óháð verðmat og greini markaðinn bæði fyrir óskráð og skráð félög. Ég hef einnig verið að aðstoða einstaklinga, en það er í minna mæli og í dag mest í gegnum Kara Connect.“

Ljósmynd/Hekla Floka

Hverjar voru helstu áskoranirnar á leiðinni?

„Áskoranirnar hafa verið ýmiss konar enda er lífið ekki áfallalaust. Ég tel að flestir sem hafa náð árangri hafi farið í gegnum áföll, mistök eða erfileika en þó alltaf staðið upp aftur.

Það eru alls konar ólíkar áskoranir sem ég hef lent í og lært af en ég held að umfram allt sé mikilvægt að vera heiðarlegur og samviskusamur. Ef þú ert að gera þitt besta samkvæmt þínum gildum án þess að særa aðra í leiðinni getur þú staðið með breitt bak.

Pabbi hefur alltaf sagt við mig að stundum þurfi að moka skít en að það taki enda - bara ekki stoppa! Lífið kemur í tímabilum, miserfiðum og misskemmtilegum. Það er mikil æfing að vera jákvæð, lausnamiðuð og halda drifkraftinum gangandi! Í ráðgjöfinni myndi ég segja að mínar helstu áskoranir séu sölu- og markaðsstarf, sem ég stefni á að úthýsa. Ég hef verið mjög lánsöm að fá mikið af verkefnum í gegnum „word-of-mouth“ og því hef ég ekki þurft að markaðssetja mig mikið. Ég vil samt setja meira púður í markaðsstarfið og stefni á að fara í það verkefni á næstunni.“

Sólveig og Karl með börnin sín þrjú.
Sólveig og Karl með börnin sín þrjú. Ljósmynd/Rán Bjargardóttir

Hvað skiptir máli að hafa í huga ef fólk ætlar að ná langt á vinnumarkaði?

„Ástríða, samskipti, tengslanet og vinnusiðferði. Standa aftur upp og halda áfram. Einn af mínum uppáhaldsprófessorum í fjármálum sagði þó gjarnan: „there are only three ways to become rich.“ 

  1. Að erfa peninga (e. Inherit money)
  2. Giftast peningum (e. Marry money)
  3. Vertu duglegur að vinna (e. Or work smart)

Þetta er samt alltaf blanda af þessu öllu og heppni. Að vera á réttum stað á réttum tíma. Þó það snúist ekki „allt um pening“ þá á þetta samleið með árangri á vinnumarkaði.“

Hvernig var þinn ferill?

„Ég hóf störf í Arionbanka samhliða verkfræðináminu frá 2007-2009. Eftir útskrift með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands (og með skiptinámi í NCSU í Norður-Karólínu) hóf ég störf í eignastýringu hjá MP-banka, sjóðsstýringu og síðar áhættustýringu. Það var ótrúlega góður tími að starfa hjá MP-banka sem heitir Kvika í dag, bæði skemmtilegir samstarfsmenn, mikill lærdómur og félagið að ganga í gegnum miklar breytingar. Þetta er stuttu eftir hrun og ég held ég hafi fengið mjög dýrmæta reynslu innan áhættustýringar á þessum tíma, tækifæri til að byggja upp módel og sjálfvirknivæðingu á sama tíma og að bregðast við breyttum eiginfjárkröfum og gjaldeyrishöftum. Þáverandi yfirmaður minn veitti mér mikið traust til að vaxa og gaf mér mikla ábyrgð til að klára mín verkefni.

Árið 2012 ákvað ég að sækja mér meiri menntun og fór í MBA-nám til Bandaríkjanna, í San Francisco í Kaliforníu. Ég fékk skólastyrk og reif því elstu dóttur mína og eiginmann með mér til að flytja á vesturströnd Bandaríkjanna. Þá var ég staðráðin í því að sýna dóttur minni gott fordæmi - að grípa tækifærin og ekki láta neitt stoppa mig.

Í San Francisco vann ég meðal annars samhliða námi að verkefni fyrir AutoDesk og síðar fór ég í skiptinám til Shanghai í Kína þar sem ég starfaði fyrir Nestle. Mig dreymir enn um að taka við starfi í Asíu - þó það yrði aðeins meira mál í dag að rífa fjölskylduna upp frá rótum.

Ég fluttist aftur heim og hóf störf hjá MP-banka, nú í eiginfjáráhættu. Mig þyrsti að komast í meiri ákvörðunartökur og fjárfestingar og færði mig því yfir í Orkuveitu Reykjavíkur þar sem ég var í fjárstýringu og fjárfestatengslum. Á þeim tíma tók ég verðbréfamiðlun og fleiri námskeið og réttindi.

Ég hef alltaf verið lánsöm að fá að hafa alþjóðlega reynslu samhliða mínum störfum, í MP-banka unnum við mikið með þáverandi útibúi okkar í Litháen og Úkraínu en í Orkuveitu Reykjavíkur vorum við í miklum samskiptum og ferðalögum að hitta erlenda lánveitendur og eða lánshæfismatsfyrirtæki.

Ég ákvað síðar að færa mig yfir til Landsbréfa og var hluti af teymi sem stýrði sérhæfðu fjárfestingasjóðunum Horni II og Horni III. Á þeim tíma sat ég meðal annars í stjórn KEA-hótela og Ölgerðarinnar. Lærdómsríkur og skemmtilegur tími með góðu samstarfsfólki.

Árið 2019, í desember korteri fyrir kórónuveiruheimsfaraldurinn, ákvað ég að stofna mitt eigið ráðgjafafyrirtæki Sólveig Ráðgjöf á 33 ára afmælisdeginum mínum. Ég hóf í kjölfarið að vinna sem ráðgjafi við nokkur nýsköpunarfyrirtæki meðal annarra GeoSilica þar sem ég tók við sem fjármálastjóri haustið 2022. Í dag hef ég veitt fjölda fyrirtækja ráðgjöf, má þar nefna Ölgerðina, KlakaTech, Samkaup, Securitas, Stígamót, Rún Heildverslun, Pure Deli og fleiri og fleiri. Mér leiðist aldrei í vinnunni, ég grínast mikið með það að ég sé með svo skemmtilegu samstarfsfólki og finnst alveg ótrúlegt að það séu kominn yfir 3 ár frá stofnun félagsins. Ég er spennt fyrir framtíðinni og þeim tækifærum og áskorunum sem ég mun takast á við. Ég er rétt að byrja!“

Hér er Sólveig á kajak ásamt eiginmanninum Karli og dótturinni …
Hér er Sólveig á kajak ásamt eiginmanninum Karli og dótturinni Sophie.

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðum þínum?

„100%, ég set mér reglulega markmið, bæði lítil og stór. Að mínu mati er nauðsynlegt að fagna öllum sigrum, litlum og stórum. Það mega ekki gleymast í hversdagsleikanum. Útskriftir, stöðuhækkanir, verkefnaskil, stjórnarsæti og fleira hafa klárlega verið tilefni til að fagna.

Ég þrífst þó á því að leita mér stöðugt nýrra áskorana og menntunar til auka hæfni mína en líka til að halda í gleðina og spennuna. Ég er til dæmis að hefja framhaldsnám í verkfræði við Háskóla Íslands í haust samhliða vinnu. Fyrirtæki sem hætta að þróa og skapa staðna og ég trúi því að það gerum við einstaklingarnir líka! Ég mun læra svo lengi sem ég lifi og stefni alltaf á að verða betri útgáfa af mér í dag en í gær.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnan mín gefur mér sjálfstæði, sjálfstraust, gleði og ánægju. Ég reyni að velja mér skemmtileg og krefjandi verkefni. Þegar ég er sjálfstæð þá bý ég við þann lúxus. Stundum koma vissulega verkefni inn á milli sem tilheyra öðru stærra sem eru ekki eins skemmtileg og verkefnin geta þróast á ólíka vegu.

Ég fæ að vinna með ótrúlega ólíkum fyrirtækjaeigendum sem eru að gera spennandi hluti á mismunandi sviðum atvinnulífsins en það er virkilega aðdáunarvert og gaman að fá að kynnast ólíkum fyrirtækjarekstri og þeirra áskorunum og tækifærum.“

Hér er Sólveig með FKA konum.
Hér er Sólveig með FKA konum.

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig, og ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Ég held að allir geti ofkeyrt sig og geti gert mistök. Stundum tengist það álagspunktum en stundum þegar við missum sjónar af ástríðunni og því sem skiptir raunverulegu máli í lífinu. Ég reyni að passa upp á mig og njóta hversdagsleikans. Fyrir mér eru það oft litlu hlutirnir í lífinu sem gefa mér mesta orku. Til dæmis kviknar á útvarpinu og ég hlusta á tónlist frá klukkan 7 alla morgna og sest niður til að borða morgunmat með krökkunum mínum, ég geng nánast alltaf með syninum í leikskólann og reyni að lesa fyrir þau sögu eða bók fyrir háttinn. Ég elska líka að fá mér góðan kaffibolla með bestu vinkonu minni og fá smá raunsæisálit á dagskrána og lífið. Ég reyni að hreyfa mig en ég fæ bæði mikla orku og jafnvægi þegar ég næ að koma hreyfingu inn í dagskrána, eyða tíma með vinkonum sem ég kalla vinkonuvítamín - enda gefur það svo margfalt til baka að hitta góða vini. Svo er svefn besta vopnið sem ég er enn að læra að bera meiri virðingu fyrir. Það er minn akkilesarhæll. Það er líka mikilvægt að fagna þessum litlu sigrum og klappa sér á bakið, horfa til baka á það sem nú þegar hefur áorkast.“

Börnin þrjú eru Sophie, Charlotte og Henry.
Börnin þrjú eru Sophie, Charlotte og Henry.

Finnst þér kon­ur þurfa að hafa meira fyr­ir því að vera ráðnar stjórn­end­ur í fyr­ir­tækj­um en karl­menn?

„Ég held að konur hafi ekki minni áhuga á að taka stjórnendastöður heldur en karlmenn en samt er tilefni til að spyrja þessarar spurningar, því kynjahlutfallið er ekki í jafnvægi.

Ég held að við ættum líka spyrja okkur spurninganna, hvernig er ráðið í æðstu stöður fyrirtækjanna, hver sér um ráðninguna, er hún auglýst, fá flestir stjórnendur meðmæli frá núverandi stjórnendum eða stjórn félagins, og hvernig er þá kynjaskiptingin þar?

Ég hlakka til að sjá meira jafnvægi og jafnrétti í efstu stjórnendalögum í íslensku atvinnulífi, ekki aðeins kynjajafnrétti heldur líka meiri fjölbreytileika hvað varðar kynþátt, aldur, bakgrunn, menntun og fleira.“

Ljósmynd/Hekla Floka

Áttu þér ein­hverja kven­fyr­ir­mynd?

„Já, svo sannarlega! Margar konur í kringum mig eru mínar fyrirmyndir í mismunandi hlutverkum í lífinu, ekki aðeins faglega heldur líka í persónulega lífinu, þar mætti til dæmis nefna ömmu mína fyrir hennar einstöku félagsgáfur, mömmu mína sem er einn mesti töffari sem ég þekki og dætur mínar sem eru alltaf að kenna mér á lífið.

Það er til svo ótrúlega mikið af flottum kvenfyrirmyndum í íslensku atvinnulífi og ég á mismunandi fyrirmyndir og mentora eftir þeirra sérsviðum. Ég hef verið svo lánsöm að stýra Mentor-verkefni FKA með stjórn FKA Framtíðar. Stjórnarkonur FKA Framtíðar eru mér líka fyrirmyndir hver á sínu sviði. Í Mentor-verkefni FKA, sem fer sívaxandi, erum við lánsamar að hafa fjöldann allan af flottum, frambærilegum kvenfyrirmyndum!

Ég er heppinn að vera með Mentor sjálf, en það er Tanya Zharov aðstoðarforstjóri Alvotech. Mentor þarf nefnilega ekki að vera með sömu menntun, á sama sviði og þú, því áskoranir og tækifæri eru oft af sama meiði þó á mismunandi sviðum séu og það er lærdómsríkt og gefandi að vera með mentor sem er ekki endilega frá sama sviði og þú sjálf. Ég lít líka upp til margra kvenna sem eru á sviði fjárfestinga og fjármála, þar mætti nefna Guðnýju Hansdóttur, Hjördísi Fjeldsted, Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur og margar fleiri.

Þá ruddu Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir ásamt Tanyu Zharov brautina þegar þær stofnuðu Auði Capital. Í kjölfarið hefur Crowberry Capital rutt sér til rúms með nýsköpunarsjóð stýrðum af flottum konum, þeim Helgu Valfells, Heklu Arnarsdóttur og Jenny Ruth Hrafnsdóttur. Aðrar konur sem hafa rutt brautina hafa verið mér fyrirmyndir, hvort sem er innanlands eða utan. 

Ég vona að ég verði brautryðjandi fyrir konur í dag, kannski með stofnun framtakssjóðs með öðru sniði en þekkist í dag, í stýringu fjölbreytt teymis. Ég trúi því innilega að með fjölbreyttu teymi með dreifðan aldur, kynþátt, uppruna, menntun og reynslu náist besta mögulega niðurstaðan. Það er vissulega erfiðara og meira krefjandi samstarf - en ég trúi því 100% að það skili sér margfalt til baka!“

Ljósmynd/Hekla Floka

Ertu með hug­mynd um hvernig er hægt að út­rýma launamun kynj­anna fyr­ir fullt og allt?

„Það er ekki nóg að útrýma launamun kynjanna, heldur þarf að jafna tækifæri kvenna til vaxtar í íslensku atvinnulífi. Það er líka svo margt sem spilar inn í því launamunur kynjanna er ekki eingöngu fyrir sambærileg störf, heldur líka stöðugildi. Þá var sérstaklega sorglegt í haust að sjá skýrslu Deloitte „Women in boardroom“ þar sem íslenskar konur virðast vera að heltast úr lestinni.“

Hvernig skipu­legg­ur þú dag­inn?

„Oftast reyni ég að skipuleggja vikuna á sunnudagskvöldum, fara yfir verkefnastöðuna og bókaða fundi. Því miður þarf ég oft að forgangsraða verkefnum viðskiptavina, sem getur verið erfitt því allir vilja vera númer eitt. Ég hef því verið að skoða aðeins í kringum mig að ráða inn fleira fólk. Oftast reyni ég að renna yfir dagsverkin, „todo” listann, uppi á skrifstofu með kaffibolla og eftir fréttalestur. Ég elska mánudaga og ofpeppast oft þá fyrir verkefnum vikunnar enda vikurnar svo fjölbreyttar og skemmtilegar.“

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

„Ég er að reyna að koma mér af stað aftur í ræktinni klukkan sex á morgnana en ég verð að viðurkenna að það gengur ekki nógu vel þessa daganna. Klukkan korter í sjö vek ég krakkana og hjálpa þeim að komast á ról. Við fáum okkur alltaf morgunmat saman með tónlistina í botni. Stelpurnar fara svo af stað í skólann korter í átta en ég geng síðan með yngsta gaurnum í leikskólann og nýt þessara fimm mínútna göngu mikið. Ég er svo lögð af stað í vinnuna um 8:15, fæ mér einn kaffibolla og byrja daginn á að lesa fréttir og skipuleggja daginn.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnu­dag eða teyg­ist vinnu­dag­ur­inn fram á kvöld?

„Það er mjög mismunandi eftir álagstímum. Stundum næ ég að hætta fyrr, kannski klukkan tvö en aðra daga þarf ég að vinna mikið fram eftir. Það hentar mér þó vel að hafa álagspunkta og sveigjanleika. Í mínu starfi snýst þetta að miklu leyti um verkefnin en ekki vinnutímann sjálfan. Ég er þó alltaf að reyna að bæta vinnutímann minn, með virðingu við fjölskylduna, en ég á það til að vinna mjög mikið. Ég reyni þó eftir besta megni að hafa helgarnar alveg fríar til að eyða með fjölskyldunni.“

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að gera utan vinnu­tíma?

„Langskemmtilegast finnst mér að njóta hversdagsleikans með krökkunum, fara í sund, hjólatúra eða bara lita og lesa heima. Ég á mér þó mörg áhugamál og nýt þess mikið að stunda þau helst með góðum vinum. Við hjónin höfum verið að byggja okkar eigið hús síðustu ár og það hefur tekið langmest af okkar tíma eftir vinnu síðustu ár, en er núna á lokametrunum, þannig að við sjáum fram á að ná að njóta lífsins aftur. Framkvæmdir og fasteignir eru þó líka okkar áhugamál og oft margt skemmtilegt í tengslum við framkvæmdirnar. Sem formaður stjórnar FKA Framtíðar nýt ég þess mikið að skipuleggja viðburði og hitta bæði stjórnina og konur innan raða FKA Framtíðar.“

Hvað ætl­ar þú að gera í sum­ar­frí­inu?

„Það er yfirleitt gert grín að því að ehf., standi fyrir ekkert helvítis frí! Ég ætla þó að reyna að taka einhverja daga með krökkunum í ferðalögum innanlands, tjaldferðalög, útreiðatúra og fjallgöngur. Við förum mikið austur til Eskifjarðar en maðurinn minn ólst þar upp. Í sumar langar okkur mikið að fara til Vestfjarða, þá sérstaklega Bolungarvíkur, en ég á ættir að rekja þangað. Umfram allt ætlum við að klára svalirnar og pallinn til að geta notið þess að vera í yndislega garðinum okkar. Við erum að fá marga góða gesti að utan, meðal annars bróður minn og konuna hans sem búa í Kanada. Annars elska ég líka að njóta Reykjavíkur á góðum sumardögum sem ég er viss um að koma í júlí og ágúst. Að fara í hjólreiðatúra, listasöfn og spóka sig um í miðbænum getur verið jafnyndislegt og ferðalög út fyrir landsteinana. Ég ætla því að vera stillt og hlýða Ásgeiri seðlabankastjóra að þessu sinni.“

mbl.is