Kanadíski leikarinn Ryan Gosling mætti með systur sína upp á arminn á frumsýningu stórmyndarinnar um Barbie sem haldin var í Toronto nú á dögunum.
Gosling–systkinin gengu rauða dregilinn á miðvikdag í tilefni kvikmyndarinnar og var systir leikarans spurð um það hvernig henni þætti að sjá yngri bróður sinn í hlutverk dúkkunnar Ken, en eitt ár aðskilur systkinin.
„Ég bjóst ekki við öðru en að hann fengi hlutverkið,“ sagði Mandi Gosling, 43 ára í viðtali við ET Kanada um stundina þegar hún frétti að litli bróðir hefði hlotið hið eftirsótta hlutverk. „Hann er Ken,“ sagði hún í framhaldi áður en hún sneri sér að Ryan og sagði: „Þú þurftir bara að finna þinn innri Ken (e. Kenergy), en ég vissi að hann byggi innra með þér.“
„Já, ég vissi það ekki,“ bætti leikarinn við og hló.
Leikarinn mætir gjarnan á rauða dregilinn í fylgd móður sinnar eða systur, en hann á í langtímasamband við leikkonuna Evu Mendes. Parið kýs að halda sig frá sviðsljósinu og mætir því oftast á Hollywood–viðburði án hvors annars.
Barbie er beðið með mikilli eftirvæntingu, en hún er væntanleg í kvikmyndahús hinn 19. júlí næstkomandi og má því búast við að bíóhús bæjarins verði máluð bleik.