Hvernig áttu að eignast vini á vinnustaðnum?

Unsplash/Ave Calvar

Það er mikilvægara en það virðist að eiga vini í vinnunni. Flestir fullorðnir eyða miklum tíma á vinnustaðnum svo það er skynsamlegt að mynda vinskap með þeim sem þú eyðir hvað mestum tíma með. Sagt er að það taki um 200 klukkustundir að mynda náið vinasamband. Vandamálið er að í nútímasamfélagi er stundum erfitt að finna tíma til að vinna í nýjum samböndum.

Vinnan er góður staður til að mynda ný vinasambönd og hér eru nokkur ráð til að gera það aðeins auðveldara.

Settu mörk

Þú verður að aðgreina þitt fagmannlega sjálf frá hinu persónulega. Vinir þínir á vinnustaðnum eru enn samstarfsfólk þitt, þú verður að vinna með því, vera hluti af teyminu, leggja þitt af mörkum og forðast frændhygli þegar kemur að verkefnum í vinnunni.

Þess vegna er mikilvægt að setja sér mörk eins og þá reglu að ræða ekki vinnutengda hluti eða forðast það að breyta skrifstofunni í þitt persónulega rými til að slúðra um aðra. Það er tími og staður fyrir allt svo þú ættir ekki að hætta að vera fagmannlegur þótt þér komi vel saman við vinnufélaga.

Þetta hjálpar þér líka að haga þér með viðeigandi hætti þegar takast þarf á við eitthvað á vinnustaðnum, án þess að skaða vináttuna.

Nýttu hádegismatinn

Eflaust hefur þú ekki tíma til að slaka á og ræða málin á meðan þú einbeitir þér að vinnunni. Til þess er matmálstíminn, sem er sá tími dags þegar þú getur slakað aðeins á.

Mælt er með því að þora að setjast niður með nýju fólki eða jafnvel bjóða einhverjum að setjast hjá þér sem tilheyrir ekki þinni deild. Matmálstíminn á að vera hlutlaust rými og rými þar sem hægt er að slökkva á öllu vinnutengdu í eitt augnablik. Hér er hægt að einbeita sér að öðru viðfangsefni, eins og kvikmyndum sem fólki líkar eða áhugamálum sem viðkomandi vill deila.

Opnaðu þig og hlustaðu

Til að eiga í sambandi við manneskju, hvort sem það er vinátta eða eitthvað annað, verður þú að kunna að hlusta og eiga samskipti. Opnaðu þig svo aðrir kynnist þér betur, viti meira um þig og hver þú ert. Hlustaðu svo á það sem viðkomandi segir á móti.

Fólk nýtur þess ef skoðanir þess skipta máli og ef aðrir fylgjast með. Hlustaðu því vel, reyndu ekki að trufla og bíddu eftir rétta tækifærinu til að bæta einhverju við samtalið.

Haltu jákvæðu og hjálplegu viðhorfi

Svartsýni er smitandi og það getur valdið því að aðrir hlaupa frá þér og vilja ekki vera í kringum þig. Þú verður því að reyna að hafa jákvætt viðhorf sem er mun meira aðlaðandi og gerir þig aðgengilegri.

Á hinn bóginn getur það að bjóðast til að hjálpa einhverjum gert það að verkum að viðkomandi finnur fyrir nánari og afslappaðri tilfinningu þegar þú ert nálægt. Það sýnir að þú ert einhver sem hægt er að treysta á og það er ekki bara mikilvægt í vinnunni, heldur einnig í vináttu.

Reynið að hittast utan vinnu

Ef þú vilt efla tengslin við vini þína úr vinnunni enn frekar er mælt með því að þú finnir leiðir til að hitta þá utan vinnustaðarins. Sem dæmi er hægt að skipuleggja viðburði sem fleiri af vinnustaðnum geta tekið þátt í.

Vinátta styrkist nefnilega þegar þið eyðið meiri tíma saman og mælt er með því að það sé ekki aðeins gert á vinnustaðnum þar sem streita og verkefni sem þarf að sinna geta verið hindrandi.

GQ

mbl.is