Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, kallar eftir því að starfslokasamningur við Birnu Einarsdóttur, fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka, verði gerður opinber strax.
Þórarinn sagðist ætla að beita sér fyrir því að samningurinn verði birtur, í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.
„Leggjum öll spilin á borðið og byggjum upp traust, því að ef við gerum það ekki þá getum við ekki haldið áfram með þetta mikilvæga ferli að losa um eignarhlut ríkisins í þessum fjármálafyrirtækjum,“ sagði hann.
Hann telur ekki ástæðu til að bíða eftir milliuppgjöri Íslandsbanka svo hægt verði að sjá starfslokasamninginn.
Almenningur eigi rétt á að fá að sjá öll gögnin varðandi sölu á hlut ríkisins í bankanum.