Gekk í lögregluna eftir meira en tuttugu ár sem hársnyrtimeistari

Sigurrós Antonsdóttir segir að það sé aldrei of seint að …
Sigurrós Antonsdóttir segir að það sé aldrei of seint að fylgja hjartanu. Ljósmynd/Aðsend

Sigurrós Antonsdóttir er 42 ára Njarðvíkurmær og býr í Reykjanesbæ. Henni er margt til lista lagt, en ásamt því að vera móðir, eiginkona, dóttir og vinkona er hún lögreglukona, formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar og varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn.

Sigurrós hélt að hún væri búin að finna sér ævistarfið, enda búin að starfa sem hársnyrtimeistari síðan hún var 22 ára gömul og rak sína eigin hársnyrtistofu. Kláraði hún einnig kennslufræði fyrir iðnmeistara árið 2011 og starfaði eftir það sem kennari við hársnyrtideild Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Í dag starfar Sigurrós hins vegar sem lögreglukona hjá Lögregluembættinu á Suðurnesjum og mun hefja nám í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri næstkomandi haust.

Nýtt hugarfar eftir covid

Fullyrðir hún að kórónuveirutíminn hafi breytt hugarfari hennar, sérstaklega eftir að veiran skæða náði í skottið á henni í desember 2021. Fyrir það hafði hún ekki misst af jólatörn á hársnyrtistofunni í 24 ár, ekki einu sinni þegar hún var í fæðingarorlofi. Þegar hún missti af jólatörninni 2021 vegna kórónuveirunnar segist Sigurrós hafa áttað sig á því að jólin koma og fara hjá henni, rétt eins og öðrum sem hún náði ekki að sinna vegna veikindanna.

„Það var á þessum tímapunkti sem ég áttaði mig á því að nú væri komið að ákveðnum lokakafla í þessu fagi. Ég fann að ég var ekki að fá eins mikið út úr því og áður og sköpunargleðin ekki lengur til staðar. Ég stóð því á tímamótum,“ segir Sigurrós. Hana hafði lengi langað að vinna að félagsmálum og skráði sig því í háskólanám í félagsráðgjöf til að láta gott af sér leiða.

Covid breytti hugarfari Sigurrósar og varð kveikjan að því að …
Covid breytti hugarfari Sigurrósar og varð kveikjan að því að hún breytti um stefnu. Ljósmynd/Aðsend

Sótti um sumarstarf í lögreglunni

Sigurrós var byrjuð í námi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands þegar hún sá auglýst eftir sumarstarfsfólki í lögregluna. Ákvað hún að sækja um starfið því hana langaði að kynnast hinni hliðinni af félagsmálum, þá sérstaklega fyrir komandi starf sitt í ráðgjöf en einnig sem verðandi formaður velferðarráðs.

„Fyrir fyrstu vaktina mína var ég smá kvíðin og hugsaði með mér að þetta væru bara þrír mánuðir. En maður lifandi hvað starfið kom mér á óvart. Það er fjölbreytt en jafnframt mjög krefjandi,“ segir Sigurrós.

Verkefni Sigurrósar voru ansi fjölbreytt þetta fyrsta sumar hennar í starfi sem lögreglukona. Allt frá því að hlaupa eftir fjúkandi trampólíni í júlí og fara svo sama dag í útkall þar sem þurfti að beita endurlífgun. Þegar sumrinu lauk hugsaði Sigurrós með sér að þrír mánuðir væru ekki nóg.

Starfið bæði spennandi og krefjandi

Sigurrós segir að það skemmtilegasta við lögreglustarfið sé að geta hjálpað fólki í samfélaginu og leiðbeint því þegar við á. „Við hittum fólk á sínum versta stað í lífinu en leysum líka verkefni og hittum það á ánægjulegu tímum,“ lýsir Sigurrós.

Hún segir að það mest krefjandi sé þegar komið er að erfiðum málum eins og andláti, þá sérstaklega þegar ungt fólk eða börn eiga í hlut. Einnig sé það krefjandi að halda utan um aðstandendur þegar svo ber að garði. „Að halda ró sinni í hverju verkefni fyrir sig er áskorun en ég tel mig alveg hafa náð því,“ segir Sigurrós.

Sigurrós segir að það sem hafi komið henni mest á óvart var hversu mikið lögreglan vinnur að heilbrigðismálum. „Að mínu mati er lögreglan í framlínunni þegar kemur að fólki með geðraskanir eða fíknisjúkdóm. Þegar fólk glímir við þessar áskoranir og er á sínum versta stað þá þurfum við að hjálpa þeim að komast undir læknishendur sem fyrst. Þá mæta manni hindranir, líkt og að bráðamóttakan á geðdeild er bara opin til klukkan 19:00. Læknar meta kannski einstakling ekki hættulegan en við sjáum annað í okkar starfi,“ segir Sigurrós. Finnst henni úrræði takmörkuð fyrir þennan jaðarsetta hóp, sem er að hennar sögn bæði svekkjandi og ekki síst vonbrigði fyrir aðstandendur þessara einstaklinga. Myndi Sigurrós vilja sjá að gert væri miklu betur í þessum málum á landsvísu.

Sigurrós með félögum sínum úr bæjarpólitíkinni, Sverri Bergmann Magnússyni og …
Sigurrós með félögum sínum úr bæjarpólitíkinni, Sverri Bergmann Magnússyni og Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Sumarstarfið varð að ævistarfi

Þrátt fyrir að starfið sé mjög krefjandi, líkar Sigurrósu lögreglustarfið það vel að hún ákvað að halda áfram eftir að sumrinu lauk.

„Mér var boðið að vera áfram og ég tók því. Ég sé alls ekki eftir því. Ein af aðalástæðunum er sú að það var einstaklega vel tekið á móti manni á vaktinni og af öðru samstarfsfólki. Þau voru öll svo hjálpsöm að koma manni inn í málin og sýna hvernig þau eru unnin,“ segir Sigurrós. Hætti hún því í félagsráðgjafanáminu og sótti í staðinn um í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri. Stefnir Sigurrós á að hefja þar nám næstkomandi haust og verður hún í fjarnámi ásamt því að halda áfram störfum sínum í lögreglunni.

Segist Sigurrós hlakka hvað mest til þess að kafa dýpra í starfið. „Að fara í nám víkkar sjóndeildarhringinn og er það viss hugarleikfimi. Það krefst mikils sjálfsaga og mikillar skipulagningar. Maður kynnist nýju fólki og hef ég nú þegar eignast marga góða og trausta vinnufélaga í þessu starfi.“

Sigurrós segist kvíða kannski mest fyrir álaginu sem fylgir því að vera í vinnu, námi, sinna fjölskyldunni eða öðrum verkefnum. Hins vegar kvíðir hún ekki fyrir náminu sjálfu því hún eigi von á því að það verði skemmtilegt. Hjálpi það einnig til að stuðningur við nemendur í lögreglufræði er hjá embættinu.

Aldrei of seint að breyta um stefnu

Sigurrós segir að viðbrögð vina og vandamanna varðandi breytingar hennar á starfsframa hafi verið skemmtileg. „Þau sem standa mér næst voru kannski ekkert svakalega hissa á þessum breytingum. Ég hef sjálf gengið í gegnum erfiða tíma á mínum árum. Ég hef misst nána ástvini og tekist á við ýmsar áskoranir í lífinu en hef náð að vinna úr því með góðri hjálp fjölskyldu og vina,“ segir Sigurrós. Bætir hún við að breytingarnar hafi kannski komið fyrrum viðskiptavinum hennar af hársnyrtistofunni hvað mest á óvart.

Að mati Sigurrósar er mikilvægt að fylgja sinni köllun sinni, hver sem hún er. „Það má breyta til, taka u-beygju í lífinu og fylgja hjartanu. Það er aldrei of seint,“ segir Sigurrós.

mbl.is