„Komst á ̶B̶o̶n̶a̶q̶u̶a̶ Toppinn,“ skrifaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í gestabók Geirmundartindar á Akrafjalli í gær.
Guðni var þar á ferð í 15 kílómetra fjallgöngu ásamt Ara Trausta Guðmundssyni og fleirum, en hópurinn gekk hringleið ofan á Akrafjall, frá Háahnúki að Geirmundartindi.
Vísaði forsetinn með skilaboðunum í nýlega nafnabreytingu rótgróna gosdrykksins Topps sem nú ber heitið Bonaqua, en talsverð umræða hefur skapast í kjölfar breytingarinnar.
Í síðustu viku sendi Coca-Cola European Partners á Íslandi frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að Toppur muni framvegis ganga undir nafninu Bonaqua. Í tilkynningunni segir að nafnabreytingin sé liður í stefnu alþjóðlegu Coca-Cola samsteypunnar sem feli í sér að leggja áherslu á færri en sterkari vörumerki á alþjóðavísu.
Forseti Íslands hefur oft gert það að umtalsefni sínu að efla og styrkja þurfi íslenska tungu gagnvart alþjóðavæddum heimi.
Þá hefur hann einnig bæði gagnrýnt þann „plagsið“ að gera ensku hærra undir höfði en íslensku hér og þar í samfélaginu og jafnframt vakið athygli á því að enskan eigi tilhneigingu til þess að smjúga sér inn í íslenskt mál.
Þó breytingin einskorðist við nýtt nafn drykkjarins vinsæla, sem mun halda sama bragði og bragðtegundum, hefur hún vakið neikvæð viðbrögð margra sem telja að með nafnabreytingunni sé illa vegið að íslenskunni.
„Hatar útibú fyrirtækisins Coca-Cola European Partners, sem eitt sinn hét Vífilfell, íslensku?“ sagði í tísti eins þeirra sem lýstu óánægju sinni með breytinguna fyrir helgi.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, hefur sagst telja breytingar af þessu tagi veikja viðnámsþrótt íslenskunnar, sem nú þegar standi höllum fæti.
Þá séu því takmörk sett hversu mikið sé hægt að bæta orðum á ensku inn í tungumálið án þess að það hafi áhrif.
„Auðvitað er eitt og eitt nafn ekkert stórkostlega alvarlegt og jafnvel tíðkast að verslanir hafi erlend nöfn. En dropinn holar steininn og stuðlar að því við verðum ónæmari fyrir enskunni og okkur finnst orðið eðlilegt að hlutir heiti enskum nöfnum. Það veikir viðnámsþrótt íslenskunnar og er vond þróun,“ sagði Eiríkur í samtali við mbl.is fyrir helgi.