Locklear illa á sig komin

Heather Locklear var vinsæl í hlutverk sínu sem Amanda Woodward …
Heather Locklear var vinsæl í hlutverk sínu sem Amanda Woodward í Melrose Place. AFP

Bandaríska leikkonan Heather Locklear hefur ekki átt sjö dagana sæla síðastliðin misseri en leikkonan hefur glímt við áfengis- og vímuefnavanda auk geðrænna heilsufarsvandamála allt frá því hún stóð á hátindi ferils síns. 

Leikkonan virtist í slæmu ásigkomulagi þegar hún sást yfirgefa skrifstofuhúsnæði í Malibu í Kaliforníu á dögunum. Locklear var angistarfull á svip samkvæmt myndum sem birtust af leikkonunni á Page Six. Hún sást ráfa um svæðið sem umlykur bygginguna í dágóðan tíma áður en hún tyllti sér niður á tröppurnar.  

Leikkonan sem er einna þekktust fyrir hlutverk sitt í bandarísku þáttaröðinni Melrose Place, tók upp dagbók og skrifaði í hana í yfir eina klukkustund. Samkvæmt sjónarvottum sást Locklear tala við sjálfa sig af mikilli hörku á meðan skrifunum stóð.  

Locklear yfirgaf svæðið ásamt unnusta sínum, Chris Heisser, en þau trúlofuðust í apríl 2020. Leikkonan er tvískilin. Hún var gift trommaranum Tommy Lee frá 1986 til 1993 og gítarleikaranum Richie Sambora frá 1994 til 2007. Locklear á 25 ára gamla dóttur með Sambora, Övu.  

mbl.is