30% þeirra sem afplána dóm á Íslandi og 60% allra gæsluvarðhaldsfanga eru erlendir ríkisborgarar og hefur sú tala farið hratt vaxandi.
Þetta staðfestir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, í samtali við mbl.is. Umboðsmaður Alþingis birti á dögunum skýrslu þar sem meðal annars kemur fram að erlendir fangar segjast skorta túlkaþjónustu.
Páll segir stundum erfitt að átta sig á móðurmáli sumra fanga og að aukinn vöxtur í erlendum föngum valdi því að oft sé erfitt að fá túlk sem tali sömu tungu fyrir erlenda fanga.
„Við veitum túlkaþjónustu eftir fremsta megni en á stundum er erfitt að átta sig á í byrjun hvaða tungu viðkomandi mælir á. Þá er á stundum erfitt að fá túlk sem talar viðkomandi tungumál.“ segir hann og bætir við.
„Verkefnið hefur því vaxið hratt að undanförnu en Fangelsismálastofnun hyggst bæta þetta verklag betur í samræmi við ábendingar umboðsmanns Alþingis.“