Taktu hörkuæfingu á 20 mínútum án búnaðs

Youtube-stjarnan Sarah Stevenson, betur þekkt sem Sarah's Day, deildi 20 …
Youtube-stjarnan Sarah Stevenson, betur þekkt sem Sarah's Day, deildi 20 mínútna hörkuæfingu með fylgjendum sínum á dögunum. Samsett mynd

Hver kannast ekki við það að detta úr æfingarútínunni yfir sumartímann? Svo tekur haustið við og þá getur verið krefjandi að koma sér aftur af stað. Hins vegar þarf ekki að vera flókið né tímafrekt að hreyfa sig á sumrin, hvort sem þú ert í sumarfríi hér á Íslandi eða erlendis.

Nýverið birti ástralska Youtube-stjarnan Sarah Stevenson, betur þekkt sem Sarah's Day, 20 mínútna hörkuæfingu án búnaðs á Youtube-rás sinni. Þessa æfingu er hægt að gera hvar sem er – heima á stofugólfinu, úti í garði eða á pallinum, á hótelherberginu eða við sundlaugina. Það eina sem þú þarft ert þú sjálf/ur því allar æfingarnar eru gerðar með eigin líkamsþyngd.

Einföld en áhrifarík æfing í tveimur hlutum

Æfingin er í tveimur hlutum, hluta A og hluta B. Í hluta A eru fjórar æfingar, en hver æfing er gerð í 40 sekúndur með 10 sekúndna hvíld inn á milli. Eftir að þú hefur gert allar fjórar æfingarnar þá er 30 sekúndna hvíld áður en þú ferð aftur í fyrstu æfinguna og endurtekur þetta þrisvar sinnum.

Þegar þú hefur gert æfingarnar fjórar í hluta A þrisvar sinnum í gegn þá hvílir þú í 45 sekúndur áður en þú byrjar á hluta B. Þar er sama fyrirkomulag – fjórar mismunandi æfingar sem eru framkvæmdar í 40 sekúndur með 10 sekúndna hvíld inn á milli. Þegar þú hefur farið í gegnum allar fjórar æfingarnar einu sinni þá er 30 sekúndna hvíld, og svo er ballið endurtekið þrisvar sinnum rétt eins og í hluta B.

Í myndskeiðinu tekur Stevenson æfinguna með áhorfendum og útskýrir hverja æfingu vel áður en loturnar hefjast. Það er því tilvalið að skella sér í íþróttafötin og taka vel á því – þetta þarf hvorki að vera flókið né taka langan tíma!

mbl.is