Hrönn Margrét Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Feel Iceland, ætlar að fara á flakk með fjölskyldunni í sumar. Hún kýs hjólhýsi fram yfir hótel eða tjald. Til þess að mega keyra með hjólhýsi þarf hún að taka kerrupróf sem hún ætlar að gera í sumar.
Ætlar þú að ferðast innanlands í sumar?
„Já, ég er að fara til Vestmannaeyja á goslokahátíðina og tek þátt í golfmóti þar. Svo fer ég í Bolungarvík þar sem ég mun meðal annars njóta stórkostlegs útsýnis á Bolafjalli, svo er stefnan einnig tekin norður á Hofsós og til Akureyrar.“
Áttu uppáhaldsstað á Norðurlandi og af hverju?
„Grenivík er í uppáhaldi, það er svo frábært fólk þar, fallegt og mikil kyrrð.“
Áttu uppáhaldssundlaug úti á landi?
„Sundlaugina á Hofsósi.“
Áttu uppáhaldsveitingastað úti á landi?
„Ég á tvo uppáhaldsveitingastaði; Slippinn í Vestmannaeyjum og Tjöruhúsið á Ísafirði.“
Hvað finnst þér best að grilla?
„Gott nautakjöt klikkar aldrei.“
Tjald eða hótel?
„Má velja hjólhýsi? Það er mitt á milli. Maður fær að njóta útiverunnar, krakkarnir leika sér fram á kvöld á tjaldsvæðinu og grillað með góðum vinum en ef það fer að rigna þá sakar það ekki og það er fljótlegt að pakka saman til að elta sólina.“
Áttu uppáhaldstjaldsvæði?
„Já, tjaldstæðið í Kjarnaskógi er í uppáhaldi hjá fjölskyldunni.“
Eltir þú veðrið á sumrin eða ertu skipulögð og fylgir áætlun?
„Það eru nokkrir fastir liðir óháðir veðri, eins og goslokahátíðin í Vestmannaeyjum og verslunarmannahelgin uppi í sumarbústað. Að öðru leyti elti ég veðrið.“
Hefur þú farið í skemmtilega göngu sem þú mælir með?
„Ég gekk einu sinni frá Hesteyri og yfir í Aðalvík fyrir vestan. Það er mjög eftirminnileg ganga, veðrið var dásamlegt og ósnortin náttúra og svo mættum við nokkrum gæfum refum á leiðinni.“
Hvað finnst þér skemmtilegt að gera með börnunum á ferðalagi um landið?
„Það er alltaf gaman að prófa nýjar sundlaugar og svo slá einfaldir útileikir alltaf í gegn.“
Er einhver staður á landinu sem þú hefur enn ekki komið á en langar að skoða?
„Það er planið að skoða Grænahrygg í sumar, ég er mjög spennt fyrir því.“
Hvaða flík verður að fara með í útileguna?
„Ég get ekki verið án dúnúlpunnar.“
Hvað ætlar þú að gera annað skemmtilegt í sumar?
„Ég ætla að taka kerrupróf í sumar svo ég megi keyra með hestakerru og hjólhýsi.“