Joe Biden Bandaríkjaforseti fékk sér tebolla með Karli III. Bretakonungi í dag eftir að hafa fundað með Rishi Sunak forsætisráðherra.
Biden, sem er sex árum eldri en konungurinn, fór með þyrlu frá Downing-stræti til Windsor- kastala.
Herdeildir konungsins og þjóðsöngur beggja ríkja tóku á móti Biden. Konungurinn og forsetinn funduðu síðan í höllinni.
Um er að ræða fyrsta opinbera fund leiðtoganna eftir að Karl var krýndur í maí. Biden var ekki viðstaddur krýninguna en eiginkona hans, Jill Biden, var viðstödd athöfnina í hans stað.
Forsetahjónin voru viðstödd jarðarför Elísabetar II. Bretlandsdrottningar í september og þá heimsótti Biden Elísabetu árið 2021.
Karl og Biden ræddu meðal annars umhverfismál og sagði Karl Biden vera „skýra rödd“ í þeim efnum.
Biden heldur nú til Vilníus í Litháen þar sem hann verður viðstaddur tveggja daga ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins.