Ozempic ekki lífsnauðsynlegt lyf

Félags fólks með sykursýki hér á landi hefur ekki miklar …
Félags fólks með sykursýki hér á landi hefur ekki miklar áhyggjur af yfirvofandi skorti á sykursýkislyfinu Ozempic. AFP/Joel Saget

„Við höfum ekki miklar áhyggjur af þessu eins og stendur,“ segir Sigríður Jóhannsdóttir, formaður Diabetes Ísland - félags fólks með sykursýki, um yfirvofandi skort á sykursýkislyfinu Ozempic hér á landi. 

Segir hún lyfið engum lífsnauðsynlegt „heldur einungis hjálpartæki“.

Ozempic er lyf ætlað við sykursýki og getur það hjálpað til við þyngdarstjórnun. Dæmi eru um að fólk sem ekki er greint með sykursýki noti lyfið til að grenn­ast og halda sér grönnu.

Ekki lífsnauðsynlegt

„Allur lyfjaskortur er auðvitað ófremdarástand. Ef það væri yfirvofandi skortur á insúlíni hefðu viðbrögð okkar verið harkalegri. Ozempic er hins vegar ekki lífsnauðsynlegt lyf svo við höfum minni áhyggjur af því.

Það er hægt að lifa án þess en það er til dæmis ekki hægt að lifa án insúlíns,“ segir Sigríður og bendir á að lyfjaskortur á Íslandi sé algengur. Málið sé því ekki einsdæmi.

Sjálfsskaðahugsanir meira áhyggjuefni

Ábendingar um möguleg tengsl á milli Ozempic og sjálfsvígs- og sjálfsskaðahugsana, sem nú eru til skoðunar hjá Lyfjastofnun Evrópu, séu aftur á móti áhyggjuefni.

„Það væri alvarlegt og ég vona að svo sé ekki. Það þarf auðvitað að skoða vel,“ segir Sigríður og bætir við að hún viti til þess að lyfið hafi reynst mörgum vel á Íslandi. 

Gæta þurfi að orsakasamhenginu

Hún segir þó að gæta þurfi að orsakasamhenginu. Taka verði tillit til þess að markhópur lyfsins, sem er fólk með langvinna sjúkdóma og fólk sem glímir við yfirþyngd, kunni að vera útsettur fyrir sjálfsvígs- og sjálfsskaðahugsunum. 

Þá hefur Sigríður ekki verulegar áhyggjur af misnotkun lyfsins á Íslandi og segist ekki hafa heyrt af því að það gangi kaupum og sölum á svörtum markaði, líkt og ábendingar hafa borist um meðal annars frá Bandaríkjunum. 

mbl.is