Ferðamenn sem ætla sér að heimsækja paradísareyjuna Balí frá og með næsta ári mega eiga von á að greiða svokallaðan ferðamannaskatt en peningurinn verður nýttur til að varðveita menningu eyjunnar.
Balí laðar til sín milljónir erlendra ferðamanna ár hvert og reiðir sig á tekjur af ferðafólki. Með álagningunni á að reyna að efla fjármuni eyjunnar og vernda suðræna töfra hennar. „Gjaldið verður aðeins rukkað einu sinni á meðan dvölinni stendur,“ sagði ríkisstjóri Balí, I Wayan Koster. „Rukkunin á ekki við um innlenda ferðamenn.“
Þegar Koster var spurður um það hvort álagningin myndi fæla ferðamenn frá eyjunni sagðist hann stórefast um það, en yfir tvær milljónir ferðamanna heimsóttu Balí á síðasta ári. „Það verður ekki vandamál. Við munum nýta peninginn til að varðveita umhverfið og einnig til þess að byggja upp sterkari innviði þannig að það verði öruggara og þægilegra fyrir fólk að ferðast til okkar,“ sagði ríkisstjórinn.
Erlendir ferðamenn verða rukkaðir um 150.000 indónesískar rúpíur en það samsvarar 1.300 íslenskum krónum.