Ekki hægt að taka eftirlitshlutverk úr sambandi

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er ósammála formanni fjárlaganefndar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er ósammála formanni fjárlaganefndar. Samsett mynd

Formaður fjárlaganefndar Alþingis hefur hafnað beiðni minnihlutans um fund til að ræða Íslandsbankasöluna. Beiðninni var hafnað í gær á þeim forsendum að ekki væri brýn nauðsyn til að kalla nefndina saman.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagir í samtali við mbl.is að þingmenn í fjárlaganefnd hafi óskað eftir því að nefndin yrði kölluð saman til að afgreiða upplýsingabeiðnir í tengslum við söluna. Rúv greindi fyrst frá málinu.

Þingmenn nefndarinnar hafi meðal annars viljað fá afhent samskipti fjármálaráðherra og Bankasýslunnar um kaup starfsmanna á bréfum í bankanum.

Nauðsynlegt að fá allar upplýsingar

Jóhann Páll er ósammála því að ekki sé brýn nauðsyn fyrir hendi.

„Ég tel að það sé brýn nauðsyn að Alþingi og almenningur fái fram allar upplýsingar um það hvað gekk á við söluna á Íslandsbanka, sérstaklega núna þegar það liggur fyrir að það voru framin alvarleg og kerfislæg lögbrot, eins og fjármálaeftirlit Seðlabankans orðar það, við söluna.

Þótt þingmenn séu í sumarleyfi þá er ekki þar með sagt að það sé hægt að taka eftirlitshlutverk þingnefnda úr sambandi.“

Ekki náðist í Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, formann fjárlaganefndar, við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is