„Ég er væntanlega ósammála því þegar það er talað um að það sé ekki lagagrundvöllur fyrir því sem ég er að gera í mínu ráðuneyti. Ég hef tjáð mig um það áður að ég hef langa reynslu úr ráðuneytum og sjaldan hefur verið gripið til ráðstöfunar með eins traustum, faglegum og lögfræðilegum grunni eins og þarna.“
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra um gagnrýni Óla Björns Kárasonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu þann 4. júlí.
Óli Björn lýsti því yfir að Svandís hafi kastað blautri tusku í andlit allra þingmanna samstarfsflokka ríkisstjórnarinnar með stöðvun sinni á hvalveiði þann 20. júní degi áður en hvalveiðar áttu að hefjast.
„Það er pólitískur barnaskapur að halda að slíkt hafi ekki áhrif á samstarfið innan ríkisstjórnarinnar. Eitt er að minnsta kosti víst: Traust milli matvælaráðherra og stjórnarþingmanna er lítið og það mun hafa áhrif á samstarf þeirra á komandi mánuðum,“ skrifaði hann.
Svandís vísar öllum staðhæfingum og ummælum Óla á bug.
Svandís segir ekkert nýtt vera að frétta af hvalveiðibanninu og að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort eigi að framlengja bannið eða ekki.
„Engin ákvörðun hefur verið tekin um næstu skref. Við erum núna í samskiptafasa í samræmi við það sem lá fyrir 20. júní. Það er að fara þess á leit við Hval hf. að greina frá því hvort það séu möguleikar í stöðunni til að stunda þessar veiðar en byggja samt á lögmætum grunni, í samræmi við dýravelferðarlöggjöfina.“