Íslendingar eru þekktir fyrir að elta veðrið í sumarfríinu, þá sérstaklega þegar kemur að tjaldútilegunni. Þar sem gönguleið að gosstöðvunum verður lokuð að minnsta kosti fram á laugardag er tilvalið að skella sér í útilegu um helgina. Það má þó ekki búast við jafn góðu veðri og var síðustu helgi þótt sólin muni láta sjá sig að einhverju leyti.
Samkvæmt tjaldvef Bliku verður besta veðrið hér.
Á Hvolsvelli er von á nokkuð góðu sumarveðri yfir helgina. Búist er við 15 gráðu hita á föstudeginum en 14 gráðum á laugardeginum. Hins vegar er spáð allt að 17 gráðum á sunnudeginum. Búist er við að hálfskýjað verði um helgina og eru engir rigningardropar í kortunum.
Tjaldsvæðið á Hvolsvelli er á hægri hönd þegar keyrt er inn á Hvolsvöll úr vestri. Svæðið er gamalgróið og afgirt með öspum, auk þess sem hver flöt er afstúkuð með trjám. Á svæðinu eru þrjú aðstöðuhús þar sem meðal annars má finna sturtu-, uppvöskunar- og eldunaraðstöðu. Aðgengi er í kalt og heitt vatn, rafmagn, gjaldskyldar sturtur og eru hundar leyfðir á svæðinu.
Við Gaddstaðaflatir við Hellu er von á nokkuð góðu sumarveðri yfir helgina. Búist er við 15 gráðu hita á föstudeginum en aðeins kaldara verður á laugardeginum, eða 14 gráður. Hins vegar er spáð allt að 17 gráðum á sunnudeginum. Búist er við að hálfskýjað verði alla helgina og ekki vottur af rigningu í kortunum.
Tjaldsvæðið við Gaddstaðaflatir er rúmgott og með nýju salernishúsi. Þar er einnig gott aðstöðuhús þar sem er eldunaraðstaða. Tjaldsvæðið er fjarri skarkala Hellu en samt er mjög stutt í alla þjónustu bæjarins. Aðgengi er að köldu og heitu vatni, rafmagni og eru hundar leyfðir á svæðinu. Ekki er sturtuaðstaða en stutt er í sundlaugina á Hellu.
Búist er við 14 gráðu hita á föstudeginum en aðeins kaldara verður á laugardeginum, eða 13 gráður. Hins vegar er spáð allt að 16 gráðum á sunnudeginum. Búist er við að hálfskýjað verði alla helgina og ekki vottur af rigningu í kortunum.
Tjaldsvæðið í Hraunborgum er skjólgott og þar er góð aðstaða fyrir barnafjölskyldur. Aðgengi er að köldu og heitu vatni, rafmagni og eru hundar leyfðir á svæðinu. Sundlaug er rétt hjá svæðinu svo þar er hægt að fara í sturtu. 25 ára aldurstakmark er á tjaldsvæðinu, nema í fylgd með fullorðnum.
Búist er við 14 gráðu hita bæði föstudag og laugardag. Hins vegar er spáð allt að 16 gráðum á sunnudeginum. Búist er við að hálfskýjað verði alla helgina, nema á sunnudeginum er von á heiðskírum himni, og ekki vottur af rigningu í kortunum.
Tjaldsvæðið á Laugarvatni er skjólsælt og rúmgott. Gott leiksvæði er fyrir börn og einnig er þar fótboltavöllur. Aðgengi er að köldu og heitu vatni, rafmagni, gjaldfrjálsri sturtu og eru hundar leyfðir á svæðinu. Aldurstakmark er 20 ár og er mikið lagt upp úr því að gestir geti sofið rótt á næturnar.
Uppfært klukkan 11:46: Tjaldsvæðið í Vatnsholti er ekki opið nema fyrir bókaða hópa í tengslum við hótelið og hefur því verið tekið út af þessum lista. Beðist er afsökunar á mistökunum.