Var hræddur við aldursmuninn

Stanley Tucci ásamt eiginkonu sinni, Felicity Blunt.
Stanley Tucci ásamt eiginkonu sinni, Felicity Blunt. ANDREW BURTON

Bandaríski leikarinn Stanley Tucci reyndi að slíta samvistum við núverandi eiginkonu sína, Felicity Blunt, áður en parið gekk í hjónaband af ótta við aldursmun hjónanna, en 21 ár aðskilur Tucci og Blunt. 

Tucci, 62 ára, er eins og fram hefur komið 21 ári eldri en Blunt, sem er eldri systir leikkonunnar Emily Blunt. Parið gifti sig árið 2012, þremur árum eftir að fyrsta eiginkona leikarans, Kate Tucci, lést eftir erfiða baráttu við brjóstakrabbamein. 

„Ég var hræddur við að skuldbinda mig og gefa af mér og reyndi því ítrekað að slíta sambandinu,“ sagði Tucci í viðtali við BBC 4 á dögunum. „Ég er 21 ári eldri en hún og vildi ekki líða sem ég væri gamall maður það sem eftir væri,“ hélt hann áfram.

Tucci var óviss um það hvort hann færi í alvarlegt samband eftir makamissinn, en Blunt hefur breytt lífi hans til hins betra. 

Hjónakornin kynntust fyrst á rauða dreglinum árið 2006 þegar kvikmyndin The Devil Wears Prada var frumsýnd, en þau hittust á ný í brúðkaupi leikaranna Emily Blunt og John Krasinski árið 2010. 

Tucci er fimm barna faðir, með tveimur eiginkonum. Var giftur Kate Tucci frá 1995 þar til hún lést árið 2009 og á með henni þrjú börn, tvíburadæturnar Isabel og Nicolo, 23 ára, og Camillu, 21 árs. Með Blunt á leikarinn tvö börn, Matteo Oliver, átta ára, og Emiliu Giovönnu, fimm ára. 

mbl.is