63 þorskhausar inni á Alþingi

Ljósmynd/Viktor Freyr

„Mér finnst strand­veiði vera fram­hald á þeirri at­vinnu­grein sem var stunduð hér um ára­tugi,“ seg­ir Kári Stef­áns­son í sam­tali við mbl.is en hann hélt ræðu á mót­mæl­um gegn stöðvun strand­veiði. Kári kveðst þó ekki and­víg­ur kvóta­kerf­inu. 

„Ég er eng­in and­stæðing­ur kvóta­kerf­is­ins ég held að kvóta­kerfið sé góð leið til að stjórna fisk­veiðum við Ísland, þó að fram­kvæmd­in á því sé mjög baga­leg eins og stend­ur. Ég held að það verði að vanda sig bet­ur í því hvernig menn deila þess­um kvóta, ekki bara fyr­ir ein­stök fé­lög held­ur líka lands­hluta,“ seg­ir Kári. 

Ekki út­gerðarfé­lög­um að kenna

Hann tel­ur það nauðsyn­legt að skilja eft­ir heim­ild­ir fyr­ir strand­veiðar, sem hann seg­ir hluta af menn­ingu sjáv­ar­plássa um land allt.

„Þegar hæst­virt­ur sjáv­ar­út­vegs­ráðherra seg­ir að það sé ekki laga­heim­ild til að auka hlut þeirra þá er það bara yf­ir­lýs­ing um að Alþingi hafi brugðist hlut­verki sínu,“ seg­ir Kári og bæt­ir við að það hlut­verk fel­ist meðal ann­ars í því að setja lög sem stuðli að jafn­rétti í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi. 

„Það er síður en svo stór­um út­gerðarfé­lög­um að kenna þau eru bara sinna at­vinnu sinni á mjög mynd­ar­leg­an hátt.“ 

Frá mótmælunum á Austurvelli í dag.
Frá mót­mæl­un­um á Aust­ur­velli í dag. Ljós­mynd/​Vikt­or Freyr

Jafn marg­ir þorsk­haus­ar inn­an sem utan Alþing­is

Kári kveðst hafa endað ræðu sína á mót­mæl­un­um með því að segja að hon­um hefði fund­ist gjörn­ing­ur strand­veiðafólks að setja þorsk­hausa á þrep­um Alþing­is ná­lægt því að vera viðeig­andi. 

„Það eina sem vantaði var að hafa þorsk­haus­ana 63 þannig að það væri sami fjöldi þorsk­hausa inn­an sem utan Alþing­is­húss­ins.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina