Skotheld útiæfing með Söru á 30 mínútum

Sara Davíðsdóttir er eigandi fjarþjálfunarfyrirtækisins Zone ásamt því að vera …
Sara Davíðsdóttir er eigandi fjarþjálfunarfyrirtækisins Zone ásamt því að vera hóptímakennari í World Class. Samsett mynd

Þjálfarinn Sara Davíðsdóttir hefur verið dugleg að hvetja fylgjendur sína á samfélagsmiðlum til að hreyfa sig í góða veðrinu.

Nýverið birti hún hörku útiæfingu sem hægt er að taka hvar sem er, en fyrir æfinguna þarf engan búnað og eru allar æfingar framkvæmdar með eigin líkamsþyngd. Það er þó að sjálfsögðu hægt að bæta þyngdum við æfingarnar.

„Þegar veðrið er of gott til þess að fara inn í rækt. Finndu tröppur í næsta nágrenni og kláraðu þessa fljótlegu og skemmtilegu útiæfingu,“ skrifaði Sara við myndskeið þar sem hún sést taka æfinguna í veðurblíðunni. 

Æfingin er í fjórum liðum:

  1. Fyrsti hluti æfingarinnar eru sprettir í stiga. Sara setur æfinguna upp með fimm ferðum í stiga en bendir á að ef tröppurnar eru fáar þá séu einfaldlega farnar fleiri ferðir. 
  2. Því næst er tekinn svokallaður „chipper“ þar sem 50 endurtekningar eru teknar af sjö mismunandi æfingum og er endurtekningafjöldi af hverri æfingu kláraður áður en farið er í næstu æfingu. Æfinguna má sjá hér fyrir neðan.
  3. Því næst eru teknar þrjár umferðir þar sem plankastöðu er haldið í 30 sekúndur í senn með hvíld inn á milli. 
  4. Að lokum eru aftur teknir fimm sprettir í stiga.

Chipper:

  • 50 hnébeygjur – hægt að brjóta upp í fimm umferðir af 10 hnébeygjum
  • 50 sprellikallar
  • 50 armbeygjur – hægt að brjóta upp í fimm umferðir af 10 armbeygjum
  • 50 framstig – 25 framstig á hvorn fót
  • 50 uppsetur – hægt að brjóta upp í fimm umferðir af 10 uppsetum
  • 50 dýfur – hægt að brjóta upp í fimm umferðir af 10 dýfum
  • 50 hnébeygjuhopp
mbl.is