Írski leikarinn Cillian Murphy þurfti að leggja talsvert á sig til að fara með hlutverk J. Robert Oppenheimer í stórmyndinni Oppenheimer og grenntist mikið fyrir og á meðan tökum stóð.
Murphy tók hlutverk sitt mjög alvarlega og fór í gegnum heljarinnar lífstílsbreytingu til þess að geta túlkað Oppenheimer, en hann var bandarískur eðlisfræðingur og yfirmaður vísindarannsókna við Manhattan-verkefnið.
Breska leikkonan Emily Blunt, sem fer með hlutverk Kitty Oppenheimer, sagði nýlega að leikarinn hafi nánast hætt að borða þar sem hann var staðráðinn í að fanga kjarna Oppenheimer. „Hann var með erfitt verkefni fyrir höndum,“ sagði Blunt í viðtali við Extra. „Hann gat leyft sér, eins og, eina möndlu á dag.“
Murphy, sem er mjög þekktur fyrir sinn einstaka leikstíl, sagði í viðtali við New York Times í maí, að hann elski að leika með öllum líkamanum og að það hafi laðað hann að hlutverkinu í Oppenheimer.
„Oppenheimer var með mjög sérstaka líkamsbyggingu sem ég vildi ólmur negla,“ útskýrði Murphy. „Ég þurfti að léttast töluvert þar sem Oppenheimer var mjög grannur, nánast þrotinn að kröftum, enda lifði hann á martíní-kokteilum og sígarettum.“
Ásamt Murphy og Blunt skartar stórmyndin einnig Matt Damon, Florence Pugh, Robert Downey Jr. og Kenneth Branagh.