Vilja fund með forsætisráðherra vegna strandveiðibanns

Smábátamenn segja að að hátt í 1.000 störf víða um …
Smábátamenn segja að að hátt í 1.000 störf víða um land séu undir vegna strandveiðibanns. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Landssamband smábátaeigenda hefur óskað eftir fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til þess að ræða við ráðherrann um þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að auka ekki aflaheimildir smábáta í strandveiðikerfinu um 4.000 tonn í þorski.

„Þessi ósk kemur í beinu framhaldi af ákvörðun matvælaráðherra um að hafna því að auka þorskveiðiheimildir strandveiðiflotans um 4.000 tonn sem hefði komið í veg fyrir veiðibann og stöðvun flotans,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda í samtali við mbl.is.

„Við ætlum að gera henni grein fyrir stöðu mála og afleiðingum ákvörðunar matvælaráðherrans sem og að ræða við hana um mikilvægi strandveiða,“ segir Örn og bendir á að hátt í 1.000 störf víða um land séu undir í þessu máli.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæði eigi það við um þá sjómenn sem verða af vinnu og tekjum vegna ákvörðunar matvælaráðherra sem og um afleidd störf, ekki síst í fiskvinnslu og flutningum, en fjölmargir aðilar víða um land, ekki síst í hinum fámennari sjávarbyggðum, hafi misst vinnu sína vegna þessa.

„Á fundinum með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra munum við ítreka beiðni okkar og teljum það vera í hennar verkahring sem forystumanns ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að orðið verði við þessari beiðni,“ segir Örn.

Svar við ósk smábátamanna um fund með forsætisráðherra hefur ekki borist enn.

mbl.is