Skipulagsstofnun álítur að setja þurfi skilyrði um uppbyggingu grunnvatnsvinnslu og að vinnsla þess úr grunnvatnsholti Reykjaness verði byggð upp í áföngum.
Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmda við fiskeldisstöð sem Samherji áformar að reisa á Reykjanesi.
Fiskeldið sem ráðgert er í stöðinni kallar á mikla vatnsnotkun. Þannig er gert ráð fyrir að notaðir verði allt að 30.000 sekúndulítrar af jarðsjó, 50 sekúndulítrar af ferskvatni og um 3.200 sekúndulítrar af ylsjó frá Reykjanesvirkjun sem rennur í dag að hluta til ónýttur til sjávar.
Stofnunin telur að grunnvatnsvinnsluna verði að byggja upp í áföngum og að áhrif hvers áfanga verði metin áður en ráðist verði í þann næsta, þannig að tryggt sé að ekki verði hafist handa við næstu áfanga fyrr en niðurstöður vöktunar fyrsta áfanga liggi fyrir og sýnt þyki að grunnvatnsgeymirinn þoli aukna vinnslu.
Hvorki er tímasett hversu snemma megi ráðast í 2. áfanga né 3. áfanga en Skipulagsstofnun telur brýnt að nýting umfram 1. áfanga verði ekki heimiluð fyrr en fyrir liggi greinargerð um niðurstöður vöktunar um viðbrögð grunnvatnsgeymisins við nýtingu 1. áfanga og sýnt verði fram á að grunnvatnsgeymirinn þoli aukna vinnslu.
Meira um málið í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.