Birta lífeyrissjóður telur rétt að breytingar verði gerðar á stjórn Íslandsbanka. Sjóðurinn telur þó ekki þörf á að skipta allri stjórn bankans út. Þá treystir lífeyrissjóðurinn því að starfslokasamningur fyrrverandi bankastjóra hafi verið í samræmi við ráðningarsamning og lög, hefur hann því ekki krafist upplýsinga um samninginn.
Birta á 1,62% hlut í Íslandsbanka og er þar með níundi stærsti hluthafi bankans.
Hluthafafundur Íslandsbanka verður haldinn á föstudaginn í næstu viku, 28. júlí. Á fundinum verður fjallað um sátt bankans við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) og viðbrögð Íslandsbanka við henni. Einnig mun fara fram kjör í stjórn bankans.
Sjö sæti eru í stjórn bankans. Í vikunni voru tilnefningar Bankasýslu ríkisins og tilnefningarnefndar Íslandsbanka birtar. Af þeim sjö sem eru tilnefndir eru fjórir stjórnarmenn. Í skýrslu tilnefningarnefndar Íslandsbanka kemur fram að Finnur Árnason stjórnarformaður, Guðrún Þorgeirsdóttir, varaformaður stjórnar, og Ari Daníelsson stjórnarmaður, hafi ekki gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að nefndin hafi fundað með hluthöfum og að skiptar skoðanir hafi verið í hluthafahópnum um hversu miklar breytingar ætti að gera á stjórn. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir sjóðinn ekki hafa gert kröfu um að allri stjórninni yrði skipt út.
„Okkar skilaboð voru að það þyrfti að fara fram einhver endurnýjun en við guldum varhug við því að endurnýja hana alla í heild sinni. Þetta er auðvitað stórt og mikið fyrirtæki og það er varhugavert að endurnýja of hratt og gera einhverja hallarbyltingu og skipta öllum út. Við vorum ekki þar,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
„Við lögðum ekki til að einn eða tveir eða þessir eða hinir ættu að fara. Við sögðum bara að okkur fyndist almennt hollt fyrir félagið að endurnýja umboð sitt og jafnvel gera einhverjar breytingar við þessar aðstæður. Spurt var, og okkur er ljúft og skylt að svara, að okkur fannst of mikið að endurnýja alla stjórnina.“
Almennur framboðsfrestur til stjórnar rennur út á sunnudaginn. Ólafur telur allt eins líklegt að einhverjir bjóði sig fram.
Allir nefndarmenn stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd Alþingis hafa farið fram á starfslokasamningur Birnu Einarsdóttur, fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka, verði birtur. Nefndin hefur ekki fengið svör frá stjórn Íslandsbanka.
Ólafur segir Birtu ekki hafa gert slíka kröfu:
„Við einfaldlega trúum því sem bankinn segir, að samningurinn sé í samræmi við ráðningarsamning og í samræmi við lög og reglur. Það er auðvitað innri endurskoðandi í þessu félagi og ef að það er eitthvað ekki eins og félagið upplýsir um, hlýtur það á endanum að koma upp.“
Stapi lífeyrissjóður hefur krafið stjórn Íslandsbanka um upplýsingar varðandi aðkomu stjórnar að sölunni á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka og eftirfylgni stjórnar við athugasemdir innri endurskoðanda.
Að mati Ólafs hefur málið verið vel upplýst og telur hann mikilvægt að gæta að jafnræði hluthafa er kemur að upplýsingum.
„Við höfum sagt að okkur finnist málið vera upplýst. Við höfum lesið skýrsluna og sáttina og öll þessi gögn og mér sýnist að miðað við það sem bankinn er að gefa frá sér núna að málið sé bara að verða nokkuð vel upplýst,“ segir Ólafur og bætir við:
„Við höfum verið að kalla eftir jafnræði hluthafa, að félagið upplýsi hluthafa eins og frekast er kostur á um allt það sem að tengist málinu, þannig að þegar að fundur hefst séu allir jafn upplýstir.“