Fyrirsæta setur eplaedik á poppið

Miranda Kerr hlúir vel að andlegri og líkamlegri heilsu.
Miranda Kerr hlúir vel að andlegri og líkamlegri heilsu. AFP

Heilsurútína ofurfyrirsætunnar Miröndu Kerr er úthugsuð. Hún leggur gríðarlega mikla áherslu á að allt í hennar lífi ýti undir bestu mögulegu heilsu.

Byrjar daginn snemma

„Ég fæ mér skot af Aloe Vera um leið og ég vakna sem er í kringum fimm um morguninn áður en börnin vakna. Ég leyfi mér þó að sofa til klukkan sex um helgar,“ segir Kerr í viðtali við The Times.

„Ég var einu sinni nátthrafn en Evan hefur sýnt mér hversu dýrmætt það er að vakna snemma.“

„Svo fæ ég mér sellerísafa, hugleiði og geri kundalini-jóga. Það hef ég gert frá því ég var átján ára. Það kemur jafnvægi á taugakerfið og gefur manni orku. Það hefur reynst mér ótrúlega vel. Fyrsta stefnumótið okkar Evans var í jógatíma. Ég var á leið í jóga og hann sagðist ætla að hitta mig þar. Hann bókstaflega bauð sjálfum sér í jógatímann og hafði gaman af. Síðan þá höfum við iðkað saman jóga alla sunnudaga.“

„Eftir jóga þurrbursta ég líkamann og fer í sturtu.“

Leggur áherslu á þarmaheilsu

„Mataræðið mitt er breytilegt. Á tímabili borðaði ég í takt við blóðflokkinn og svo var ég um tíma á eingöngu grænkerafæði. Að undanförnu hef ég lagt áherslu á flóruna og þá borðað að mestu grænmeti, kjötseyði og þara sem er gott fyrir þarmana. Ég reyni að leggja áherslu á mikilvægi næringar fyrir börn mín. Jafnvel þegar við fáum okkur popp saman þá bætum við stundum eplaediki við poppið.“

Hefur lagt stund á næringarfræði

Mikil áhersla var lögð á mikilvægi góðrar heilsu þegar Miranda var að alast upp.

„Þó að við bjuggum í ódýrasta húsinu í minnsta þorpinu þá höfðum við reit þar sem við ræktuðum eigið grænmeti á lífrænan máta. Heilsan er fyrir öllu. Ég sá það þegar móðir mín greindist með krabbamein í milta. Þá fékk ég mikla ástríðu fyrir heilsu og vellíðan og lærði næringarfræði. Ég vil alltaf læra meira um það hvernig maður getur gefið líkamanum það sem hann þarf til þess að hann virki sem best. Þetta þarf ekki að vera flókið.“

Kenna börnunum þakklæti

„Við gefum þakkir fyrir hverja máltíð. Við eiginmaður minn trúum bæði á Guð og trúin sameinar okkur. Ég ólst upp við svo fátæklegar aðstæður að ég gleymi stundum að börnin mín gerðu það ekki. Ég tek því ekki af léttúð. Fimm ára barnið mitt fær bara eina gjöf á ári, á afmæli sínu. Nema það sé bók, þá má hann fá eins margar og hann vill.“

Er berfætt í garðinum

„Ef ég þarf að fá stund fyrir sjálfa mig þá geng ég um berfætt í garðinum mínum. Ég finn grasið undir fótunum og sný lófunum upp að sólinni. Þá verð ég strax endurnærð.“

„Hugleiðsla hefur gert mikið fyrir mína andlegu heilsu. Ég hef hugleitt alla morgna í tuttugu ár. Ég passa mig svo á að setja símann minn á flugstillingu (e. airplane mode) frá klukkan sjö að kvöldi til klukkan 7 að morgni. Þannig næ ég að endurstilla mig algerlega yfir nóttina,“ segir Kerr að lokum.

Miranda Kerr á tískusýningu Louis Vuitton í júní síðastliðnum.
Miranda Kerr á tískusýningu Louis Vuitton í júní síðastliðnum. AFP
Evan Spiegel og Miranda Kerr fara saman í jóga alla …
Evan Spiegel og Miranda Kerr fara saman í jóga alla sunnudaga. AFP
mbl.is