Missti vinnuna og stofnaði eigið fyrirtæki

Anna Björk Árnadóttir ásamt eiginmanni sínum, Brynjari Árnasyni, og tveimur …
Anna Björk Árnadóttir ásamt eiginmanni sínum, Brynjari Árnasyni, og tveimur dætrum, Céilí Björk og Margréti Halldóru. Samsett mynd

Anna Björk Árnadóttir viðburðastjóri rekur fyrirtækið Eventum sem sérhæfir sig í alhliða skipulagningu á ýmiss konar viðburðum. Eftir að hafa starfað í snyrtivörubransanum í yfir 11 ár ákvað hún að skipta um stefnu og skráði sig í rússnesku í Háskóla Íslands og tók viðburðastjórnun sem aukagrein. 

Getur þú lýst starfinu þínu?

„Ég er í skemmtilegasta starfi í heimi, því ég starfa við það að skipuleggja viðburði alla daga. Í starfinu fá frjóar hugmyndir að flæða og þær bestu verða að veruleika. Okkar markmið er að hver viðburður verði ógleymanlegur og að fólk upplifi einstaka stund.

Við hjá Eventum sérsníðum alla okkar viðburði að þörfum viðskiptavina okkar og því er starfið fjölbreytt og oftast krefjandi og þannig viljum við hafa það. Það krefst mikils skipulags að halda utan um viðburði þannig að hann gangi snurðulaust fyrir sig og því mikilvægt að vinna með góðu teymi. Þegar vel tekst til þá fylgir því sönn gleði að sjá gesti njóta sín og skemmta sér og þannig verða til góðar minningar sem er auðvitað lokatakmarkið.“

Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi?

„Ég hef alltaf haft gaman af því að skipuleggja eitthvað sem hefur upphaf og endi. Að fá að glæða eigin hugmyndir lífi og sjá þær lifna við, verða að veruleika.

Áður en ég stofnaði Eventum og var að velta fyrir mér við hvað ég vildi starfa sagði góð kona mér að það væri alveg ljóst í hennar huga hvað ég ætti að gera. Ég ljómaði öll og hálfpartinn lyftist úr stólnum þegar ég byrjaði að ræða um viðburði og skipulagningu þeirra. Stundum sjá aðrir eitthvað sem maður sér ekki sjálfur. Það eru því algjör forréttindi að fá að vinna við það sem maður elskar.“

Eventum-teymið á Sjómannadaginn 2023. Efri röð f.v. Kristín Axelsdóttir Foelsche, …
Eventum-teymið á Sjómannadaginn 2023. Efri röð f.v. Kristín Axelsdóttir Foelsche, Anna Björk Árnadóttir, Gunnur Arndís Halldórsdóttir, Céilí Björk Rock. Neðri röð f.v. Hrund Scheving, Debóra Dögg Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Anna Björk Árnadóttir

Prófaði ýmislegt

Hvernig var þinn ferill?

„Eftir að hafa unnið í snyrtivörugeiranum í meira en 11 ár ákvað ég að breyta til og skráði mig í rússnesku í Háskóla Íslands. Ég bjó í Litháen sem unglingur þar sem ég lærði rússnesku og fannst mér því heillandi að læra meira.

Eftir námið prófaði ég ýmislegt og vann meðal annars sem verkefnastjóri, vörumerkjastjóri en enda svo sem viðburðastjóri og fann þá fljótt að ég væri á réttri hillu. Ég hef unnið sem viðburðastjóri frá árinu 2016 en þegar kórónuveiran reið yfir missti ég vinnuna eins og svo margir aðrir.

Ég á ekki gott með að vera með fáa bolta á lofti og engin plön og var ég því komin með ein tíu plön og hugmyndir um það hvert ég stefndi næst. Á þessum tíma var ég meðal annars búin að skrá mig í mastersnám á Bifröst.

Ég leitaði ráða hjá mörgum góðum konum, sérstaklega innan Félags Kvenna í Atvinnulífinu (FKA), og út úr þessu kom sú hugmynd að ég ætti kannski bara að stofna mitt eigið viðburðafyrirtæki, sem ég gerði í mars 2021.“

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum?

„Ég á yndislega fjölskyldu, er gift Brynjari Árnasyni og á tvær hraustar stelpur, Céilí Björk Rock, 16 ára, og Margréti Halldóru, níu ára. Ég er einnig í draumastarfinu þannig að, jú það kemur fyrir að ég hugsi þannig.

Það er þó alltaf hægt að læra meira, gera betur og upplifa ný ævintýri svo ég tel mig eiga nóg eftir. Ný framtíðarmarkmið verða sett niður jafnóðum.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Raunverulega allt. Það að fá að skapa og láta mínar eigin hugmyndir verða að veruleika veitir mér mikla gleði og ánægju.“

Ómetanlegt að geta leitað ráða

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já, mér hættir til að fara fram úr mér þegar markmiðin eru háleit. Ég er líka góð í að staldra við og gefa mér tíma til að jafna mig eftir mikla törn. Það geri ég helst með því að hitta góðar vinkonur í gott spjall. Það er ómetanlegt að geta fengið góð ráð frá þeim sem manni þykir vænt um.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Nei, ég held og vona að sá tími sé liðinn, þó svo ég hafi ekki kynnst því af eigin raun, enda yfirleitt unnið í frekar kvenlægu umhverfi. Mér finnst konurnar í kringum mig hafa hlotið góðar stjórnunarstöður til jafns við strákana.“

FKA Framtíðarstjórnarkonur á lokahófi mentoraverkefnisins 2023. F.v. Karlotta Halldórsdóttir, Addý …
FKA Framtíðarstjórnarkonur á lokahófi mentoraverkefnisins 2023. F.v. Karlotta Halldórsdóttir, Addý Hrafnsdóttir, Sólvig Ragnheiður Gunnarsdóttir og Anna Björk Árnadóttir. Ljósmynd/Anna Björk Árnadóttir

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Foreldrar mínir eru miklar fyrirmyndir í mínu lífi. Þau hafa bæði eiginleika sem ég reyni að tileinka mér daglega. Ég leit alltaf mikið upp til pabba, en hann var stór og mikill maður og í mínum augum gat hann allt. Mamma er ljúfasta manneskja sem ég þekki og hefur kennt mér að vera jákvæð, bjartsýn og taka lífinu létt. Það er ekki ónýtt veganesti.

Sömuleiðis hef ég verið svo lánsöm að vera með frábæra leiðbeinendur, en þeir eru allir miklar fyrirmyndir og hafa gefið mér sjálfstraust til að gera það sem ég geri og verið gríðarlegur stuðningur þegar á reynir. Ég ber einnig mikla virðingu fyrir þeim konum sem hafa rutt brautina fyrir okkar hinar sem eru í dag að feta framaveginn.“

Morgunbollinn mikilvægur

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég vildi að ég gæti sagt að ég vakni snemma og fari í ræktina, en það er ekki svo gott!

Ég vakna snemma, fer í sturtu, kem stelpunum af stað og fæ mér fyrsta kaffibollann. Eftir það blæs ég hárið og farða mig. Ég er mikil kjólakona og smelli mér í kjól og síðan beint út í bíl. Ég er mætt á skrifstofuna á milli klukkan átta og níu á morgnana og þá hefst vinnudagurinn.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Ég vinn í þannig geira að það er erfitt að halda sig við hinn hefðbundna átta stunda vinnudag, en verkefnin koma í törnum og þá tekur maður rólegri tímabil inn á milli. Þetta jafnast ágætlega út.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Ég elska að eiga góðar stundir með vinum og fjölskyldu. Að fá góða gesti í mat og spil klikkar aldrei.“

mbl.is