Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, hefur svarað ásökunum Snorra Mássonar fjölmiðlamanns. Eiríkur segir ásakanir Snorra óheiðarlegar.
Þetta byrjaði með því að Heiðar Guðjónsson fjárfestir hafði í hlaðvarpi Skoðanabræðra lýst áhyggjum sínum af afdrifum íslenskrar tungu og þar með menningar ef fólksfjölgun á Íslandi yrði áfram einkum á forsendum þess að tugir þúsunda innflytjenda flytji til landsins á ári hverju, sem fæstir læra íslensku.
Eiríkur brást við þeim málflutningi með því að að segja Heiðar ala á útlendingaandúð undir formerkjum málverndar.
Snorri sagði þá nálgun Eiríks óheiðarlega. „Ef þú lest það sem Heiðar segir og enn fremur ef þú hlustar á það þá raunverulega, og ég er ekki að þykjast vera heimskur, þá finn ég ekki hvar útlendingaandúðin er. Hann er bara að velta þessu upp. Þetta eru breytingar sem eru að verða. Hvað finnst okkur um það, er hann að segja,“ sagði Snorri í öðrum þætti Skoðanabræðra.
Eiríkur hefur nú svarað ásökunum Snorra á Facebook.
„Ég sé að Snorri Másson vænir mig um óheiðarleik í viðbrögðum mínum við viðtali sem hann og Bergþór bróðir hans áttu við Heiðar Guðjónsson um daginn,“ segir Eiríkur.
Snorri gefi í skyn að Eiríkur tali gegn betri vitund sinni og það sé óheiðarlegt. Eiríkur segist ekki skilja hvernig Snorri fær það út.
Hann segir endursögn Snorra á viðtalinu við Heiðar vera býsna ónákvæma. Því fari fjarri að Heiðar sé hlutlaust að velta fyrir sér þróun útlendingamála á Íslandi.
„Það er alveg augljóst að hann er að tala mjög ákveðið gegn þeirri þróun sem um ræðir,“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir þó rétt það sem Snorri segir um að hann hafi ákveðnar hugmyndir um hvernig eigi að berjast fyrir íslenskunni.
„Þær felast í því að það skuli gert með jákvæðni, umburðarlyndi og virðingu fyrir fólki að leiðarljósi, en ekki með leiðréttingum, umvöndunum, yfirlæti og þjóðrembu,“ bætir Eiríkur við.
„Með því að tala um „útlendingaandúð undir formerkjum málverndar“ var ég að lýsa þeirri tilfinningu sem ég fékk við lestur viðtalsins og byggði á ýmsum atriðum í orðalagi og framsetningu,“ segir Eiríkur undir lok færslunnar.
Hann segist ekki gera kröfu til þess að túlkun hans sé talin réttari en aðrar, og það megi alveg reyna að sannfæra hann um að hann hafi rangt fyrir sér.
„Ég ætlast hins vegar til þess að því sé trúað að það sem ég segi sé einlæg tilfinning mín en ekki sett fram gegn betri vitund af einhverjum annarlegum hvötum. Það finnst mér óheiðarleg ásökun,“ segir Eiríkur.