Finnur Árnason, fráfarandi stjórnarformaður stjórnar Íslandsbanka, biður hluthafa Íslandsbanka afsökunar á slakri framkvæmd bankans við söluna á 22,5% eignarhlut ríkisins í bankanum sem fram fór í mars í fyrra. Hann segir málið hafa verið áfall fyrir stjórn bankans.
Þetta kom fram í máli hans á hluthafafundi Íslandsbanka sem hófst klukkan ellefu í dag. Finnur fór við sama tækifæri yfir sátt Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.
Í júní var greint frá því að Íslandsbanki hefði gengist við því að hafa ekki starfað fyllilega í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum vegna framkvæmdar á útboðinu sem fór fram. Féllst bankinn á að greiða 1,2 milljarða króna í sekt vegna málsins. Um er að ræða langhæstu sekt sem lögð hefur verið á fjármálafyrirtæki hér á landi.
Finnur greindi frá því að málið hefði verið áfall fyrir stjórn Íslandsbanka.
Jafnframt greindi hann frá erfiðleikum sínum við að fá fund með seðlabankastjóra. Sagði Finnur að hann hefði ítrekað óskað eftir fundi, án árangurs.