Mygla greinist í Valhúsaskóla

Mygla fannst í Valhúsaskóla.
Mygla fannst í Valhúsaskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mygla og rakaskemmdir fundust í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi við rannsóknir sem verkfræðistofan Efla hefur annast í sumar. Tafarlausra aðgerða er þörf í byggingunni og er fundur á þriðjudag hjá skólastjórnendum, bæjaryfirvöldum og sérfræðingum Eflu til að ræða næstu skref.

Þetta kemur fram á vef Seltjarnarnessbæjar þar sem segir einnig að brugðist verði við þessum niðurstöðum umsvifalaust.

Ræða næstu skref á þriðjudag

Í sumar hefur Efla rannsakað skólabyggingar Seltjarnarnessbæjar vegna gruns um raka og myglu og nú er ljóst að grunurinn var á rökum reistur.

Á vef bæjarins kemur fram að aðgerðaráætlun verði kynnt um leið og hún liggi fyrir og að auk þess verði fundað með starfsfólki skólans og foreldrum við fyrsta tækifæri um mögulegar truflanir sem þetta gæti valdið skólastarfinu.

„Við þessari niðurstöðu verður strax brugðist en skólastjórnendur og starfsmenn Seltjarnarnesbæjar eru þessa dagana í sambandi við verkfræðistofuna Eflu um næstu skref og ráðleggingar um aðgerðaáætlun. Ítarlegri upplýsingar eru væntanlegar eftir fund skólastjórnenda og bæjaryfirvalda með sérfræðingum Eflu næstkomandi þriðjudag.“

mbl.is