„Okkur varð heldur betur á í messunni“

Ari Daníelsson, fráfarandi stjórnarmaður Íslandsbanka.
Ari Daníelsson, fráfarandi stjórnarmaður Íslandsbanka. mbl.is/Eyþór

„Okkur varð heldur betur á í messunni, alvarleg mistök voru gerð og við súpum nú seyðið af því.“

Þetta sagði Ari Daníelsson, fráfarandi stjórnarmaður Íslandsbanka, á hluthafafundi Íslandsbanka sem hófst klukkan ellefu á Grand Hótel Reykjavík.

Ari tók til máls rétt fyrir klukkan tólf í dag og gerði grein fyrir ástæðum þess að hann tók þátt í söluferli útboðsins á hlut ríkisins í Íslandsbanka á sínum tíma. Hann bar meðal annars fyrir sig að hann hefði ekki haft neinar upplýsingar um þá annmarka sem voru á sölunni á sínum tíma.

„Sjáumst í næsta stríði“

Hann viðurkenndi þó að mistök af sinni hálfu hefðu verið gerð í útboðinu. Eins og greint efur verið frá gefur Ari ekki kost á sér til endurkjörs til stjórnarsetu í Íslandsbanka.

Þátttaka mín var óheppileg. Ég sá það ekki fyrir og mér þykir það miður. Ég harma það að hafa ekki metið þátttöku mína frá fleiri hliðum,“ sagði hann.

Hann ítrekaði jafnframt að þrátt fyrir þau vandkvæði sem söluferlið var bundið standi rekstur Íslandsbanka enn á sterkum stoðum. 

Hann ávarpaði að lokum samstarfsfólk sitt: „Ég óska ykkur öllum velfarnaðar í ykkar verkefnum. Ég þakka fyrir samstarfið að sinni og við sjáumst í næsta stríði.

mbl.is