Frans páfi hefur lýst yfir áhyggjum sínum vegna mannskæðra gróðurelda sem geisa nú í Grikklandi og víðar við Miðjarðarhafið. Hann hvetur fólk til að leggja sitt af mörkum við að vernda umhverfið.
Vatíkanið birti í dag símskeyti með þessum skilaboðum páfans. Flutti Pietro Parolin, kardináli og ráðherra Vatíkansins, erindið fyrir hönd æðstaprestsins og er skeytið stílað á forseta gríska biskuparáðsins, Petros Stefanou.
„Hans heilagleiki Frans páfi er djúpt snortinn vegna lífshættunnar og tjónsins sem víðfeðmir gróðureldar, sem stafa af hitabylgjunni sem nú gengur yfir í Evrópu, hafa valdið í Grikklandi og víðar,“ segir í skeytinu.
Þar kemur fram að hinn 86 ára gamli páfi biðji þess að Guð „blessi slökkviliðsmenn og aðra neyðarviðbragðsaðila fyrir þeirra framlag,“ í baráttunni við náttúruhamfarirnar.
„Það er sömuleiðis von hans að hættan sem nú steðjar að sameiginlegu heimili okkar, og fer versnandi vegna áhrifa loftslagskrísunnar, verði fólki endurnýjuð hvatning til þess að leggja sitt af mörkum við að gæta að þeirri gjöf sem því hefur hlotnast, í þágu komandi kynslóða,“ segir ennfremur í skeytinu.
Mannskæðir gróðureldar hafa geisað í Grikklandi í um 10 daga. Þá hafa skæðir gróðureldar einnig komið upp í Ítalíu, Króatíu, Portúgal og Alsír.
Hitabylgja, sem staðið hefur yfir í þremur heimsálfum í sumar, Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu, hefur haft áhrif á tugmilljónir manns.
Þá stefnir allt í að þessi júlímánuður verði heitasti mánuður frá upphafi mælinga á jörðinni.
Vatíkanið birti að auki annað sambærilegt símskeyti sem einnig er sent fyrir hönd Frans páfa og stílað á Matteo Zuppi, forseta ítalska biskuparáðsins.
Í því skeyti kallar Hans heilagleiki Frans páfi eftir „djörfum og langvinnum aðgerðum til þess að takast á við áskoranir loftslagsbreytinga“.