Vegagerðin hefur samið við Loftorku og Suðurverk um þriðja áfanga Arnarnesvegar milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar.
Um er að ræða nýbygginu vegar á um 1,9 kílómetra kafla auk brúarmannvirkja og undirganga. Markmiðið með framkvæmdinni er að auka umferðaröryggi og stytta ferðatíma sem og að létta verulega á umferð um Vatnsendaveg. Þá mun vegkaflinn bæta til muna viðbragðstíma fyrir neyðaraðila í efri byggðum Kópavogs og Reykjavíkur, eins og segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkur, Kópavogs, Betri samgangna ohf., Veitna og Mílu og er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu.
Undirbúningur hefst strax í þessari viku og búist er við að framkvæmdir hefjist um miðjan ágúst, að því er fram kemur í tilkynningunni.