Samið um þriðja áfanga Arnarnesvegar

Vegagerðin hefur samið við Loftorku og Suðurverk um þriðja áfanga …
Vegagerðin hefur samið við Loftorku og Suðurverk um þriðja áfanga Arnarnesvegar milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Ljósmynd/Vegagerðin

Vegagerðin hefur samið við Loftorku og Suðurverk um þriðja áfanga Arnarnesvegar milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar.

Um er að ræða nýbygginu vegar á um 1,9 kílómetra kafla auk brúarmannvirkja og undirganga. Markmiðið með framkvæmdinni er að auka umferðaröryggi og stytta ferðatíma sem og að létta verulega á umferð um Vatnsendaveg. Þá mun vegkaflinn bæta til muna viðbragðstíma fyrir neyðaraðila í efri byggðum Kópavogs og Reykjavíkur, eins og segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Fjármagnað af Samgöngusáttmálanum

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkur, Kópavogs, Betri samgangna ohf., Veitna og Mílu og er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu.

Undirbúningur hefst strax í þessari viku og búist er við að framkvæmdir hefjist um miðjan ágúst, að því er fram kemur í tilkynningunni.

mbl.is