„Tafarlaust“ þýði annað hjá hinu opinbera

Forstjóri Heilsuverndar segir að samkv. skýrslu framkæmdarsýslu ríkisins þurfi að …
Forstjóri Heilsuverndar segir að samkv. skýrslu framkæmdarsýslu ríkisins þurfi að ganga í „tafarlausar aðgerðir“ vegna myglu sem greindist á hjúkrunerheimilinu Hlíð á Akureyri. „Tafarlaust þýðir greinilega annað í huga hins opinbera. Því enn bíðum við eftir viðbrögðum við þessu tafarlausa.“ Samsett mynd

Enn er beðið eftir framkvæmdaráætlun frá Framkvæmdarsýslu ríkisins vegna myglu á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar, kveðst ósáttur með tafirnar og segir að hið opinbera standi ekki við skuldbindingar sínar.

„Við bíðum enn eftir framkvæmdaráætlun frá hinu opinbera sem átti að liggja fyrir í október 2021,“ segir Teitur í samtali við mbl.is en 15 hjúkrunarrými á Hlíð hafa verið lokuð síðan í janúar vegna myglu.

Teitur segir að búið ´se að ræða málið á vettvangi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), sem eru heidarsamtök þeirra aðila sem veita þjónustu hjúkrunarheimila hér á landi. „Þau eru sammála í því að þetta er óásættanleg staða“

Beðið í meira en ár

„Þegar við tókum við rekstrinum í maí 2021 þá vissum við að húsnæðið væri ekki í lagi,“ segir Teitur við mbl.is. Þess vegna hafi verið gerður samningur við ríkið sem fólst í því að ríkið gerði útekt á húsinu og framkvæmdaráætlun til þess gera við það sem er að svo hægt sé að nýta húsið til fulls. Úttektin átti að liggja fyrir í október 2021. „Það tefst von úr viti og við fáum þessa útekt ekki fyrr en árið 2022 og upplýsingarnar um þá útekt ekki fyrr en seinni hluta 2022 eftir að hafa þurft þráfaldlega að eltast við hana.”

Þá hafi ráðuneytið og aðilar sem stóðu að þessari rannsókn þegar vitað að því að það væri mygla í húsnæðinu.

„Við bregðumst þá við því og það er farið í aðra skýrslutöku og síðan þá þriðju á þessu ári. Framkvæmdarskýrsla ríkisins hefur fengið Mannvit sem þriðja aðila til þess og úttektirnar sýna allar fram á það að það er bráð þörf á að gera við húsnæðið. Enn þann dag í dag bíðum við eftir því að menn geri það sem þeir eigi að gera.“

Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar.
Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sjá ekki fram á að opna rýmin von bráðar

„Það sem við höfum gert á móti er að við höfum þurft að loka 15 hjúkrunarrýmum með tilheyranndi skerðingu á þjónustu á Akureyri og svæðinu fyrir norðan. Við erum ekki að sjá fram á að þau rými opni neitt á næstunni við fengum upplýsingar um það í síðustu viku að það séu margar vikur í að menn klári útboð og fari síðan í framkvæmdir í framhaldinu en þá erum við komin inn í veturinn.“

Segir hann að á meðan rýmin eru lokuð sé ekki hægt að sinna þeirri þjónustu sem samningur Heilsuverndar og ríkisins segi til um. „Við það erum við alveg óskaplega ósátt. Það eina sem þetta gerir er að valda álagi á heilbrigðisþjónustuna fyrir norðan og skerðir þjónustu við aldraða.“

Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.
Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Ljósmynd/Akureyrarbær

Kristaltært að ríkið og sveitarfélag eigi húsið

„Það sem við höfum verið enn ósáttari við er að heilbrigðisráðuneytið og sjúkratryggingar telja að sá vandi sem þessu fylgir– það að rýmin séu lokuð– sé okkar og við eigum að bregðast við því tekjutapi sem það veldur í viðbót,“ segir Teitur. „Það er algjörlega kristaltært að ríkið og sveitarfélagið eiga húsið. Bæði hafa skuldbundið sig við að koma þessu í ástand sem eðlilegt er og við höfum verið að bíða eftir þeim efndum síðan við undirrituðum samninga í apríl árið 2021.“

Hann segir að það sem Heilsuvernd hjúkrunarheimili muni þurfa að gera til þess að ná að snúa ofan af þessu er að setja fólk í fjölbýli. Það gangi hins vegar gegn stefnu stjórnvalda um rekstur hjúkrunaheimila. „Hér erum við með þá stöðu að hið opinbera hafi það í hendi sér og hefur vitað að því mjög lengi að þessi vandi væri til staðar, hann heldur áfram og það er ennþá verið að tefja það að laga það.“

Segir hann að í skýrslu Framkæmdarsýslu ríkisins komi fram að það þurfi að ganga í „tafarlausar aðgerðir“.

„Tafarlaust þýðir greinilega annað í huga hins opinbera. Því enn bíðum við eftir viðbrögðum við þessu tafarlausa.“

mbl.is