„Stutt“ í útboð framkvæmda

Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.
Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Ljósmynd/Akureyrarbær

Stutt er í framkvæmdir vegna myglu á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri samkvæmt upplýsingum frá Fram­kvæmda­sýsl­unni-Rík­is­eign­ir (FSRE). Upplýsingafulltrúi FSRE segir að framkvæmdirnar hafi tafist vegna þess að ekki var ljóst í upphafi hvort ríkið eða Akureyrarbær ætti að sjá um framkvæmdirnar.

Enn er beðið eft­ir fram­kvæmdaáætl­un frá ­FSRE sem átti að liggja fyr­ir í októ­ber 2021. Hlíð hefur því þurft að loka 15 hjúkr­un­ar­rým­um með til­heyr­ann­di skerðingu á þjón­ustu á Akur­eyri og svæðinu fyr­ir norðan, að sögn Teits Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Heilsuverndar.

„Það er mjög stutt í hana,“ segir Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi FSRE, við mbl.is spurður um hvenær áætlunin eigi að liggja fyrir.

„Drögin liggja fyrir en við þurfum að undirganga ýmis lög, eins og lög um opinber innkaup og lög um opinberar framkvæmdir, sem þyngir svolítið róðurinn.“

Segir hann að það sé of snemmt til að segja til um hvenær útboðið fari í loftið en, „framkvæmdaáætlunin liggur fyrir og við erum að vinna í mjög góðu sambandi við Heilsuvernd að þessu verkefni“.

Flókið mál

Inntur eftir því hvers vegna aðgerðir hafa tafist segir Karl að málið sé afar flókið.

„Akureyrarbær er eigandi hússins. Það var ekkert alveg ljóst á milli ríkis og bæjar hver ætti að fara í þessar framkvæmdir. Nú hefur ríkið samþykkt að undirgangast þá skyldu og verkefnið er þar af leiðandi á okkar borði og við erum að vinna í því eins hratt og hægt er og erum með okkar besta fólk í því.“

Segir hann að unnið sé framkvæmdum eins hratt og hægt er, með tilliti til þeirra skorða sem lög setja. Það séu ákveðnir hlutir af framkvæmdinni sem þarf að setja í útboð.

„Útboðið tekur tíma. Það mun taka einhverjar vikur og einhverja mánuði að koma hlutum af stað,“ segir hann.

mbl.is