Stór hluti af norðurhluta Kína er illa leikinn eftir gríðarlega úrkomu sem hefur gengið yfir svæðið undanfarna daga. Peking, höfuðborg Kína, og umliggjandi svæði urðu einna verst úti, en kínverska veðurstofan segir að fólk í borginni hafi upplifað „mestu úrkomu í 140 ár,“ eða frá því að borgaryfirvöld hófu að skrá úrkomumælingar.
„Mesta úrkoman sem var skráð í þessu óveðri, voru 744,8 millimetrar,“ sagði veðurstofan og bætti við að mesta magn sem áður hefur mælst hafi verið 609 millimetrar árið 1891.
„Að minnsta kosti 11 hafa látið lífið í rigningunum í Peking,“ sagði kínverska ríkisútvarpið CCTV í gær, en meira en tugi er saknað.
Kínverjar hafa átt undir mikið högg að sækja undanfarna mánuði vegna öfgakennds veðurfars. Í sumar hafa fallið hitamet í hitabylgjum sem hafa gengið yfir landið, ásamt úrkomumetum í núverandi hamfararegni.
Ma Jun, forstöðumaður samtaka um almennings- og umhverfismál í Peking, sagði í samtali við fréttastofu AFP, að þótt fellibylurinn hafi borið með sér rigninguna, hafi hækkandi sjávarhiti af völdum loftslagsbreytinga borið meginábyrgð á öfgaveðrinu.
„Kína hefur orðið fyrir fordæmalausum hitabylgjum frá því í fyrra. Í ár hefur hitastig mælst methátt í Norður-Kína,“ sagði Ma við fréttastofu AFP.
„Þessar hitabylgjur eru tengdar hlýnun jarðar og þetta er það sem flestir loftslagsvísindamenn um allan heim eru sammála um,“ bætti hann við.