Rétta leiðin til þess að klippa táneglur

Það er kúnst að viðhalda fallegum tám.
Það er kúnst að viðhalda fallegum tám. Ljósmynd/Unsplash/Jan Romero

Margir gefa tánum lítinn gaum en á sumrin fá þær stundum aukna athygli og þá er betra að hafa þær vel snyrtar.

Fótaðgerðafræðingar leggja áherslu á að fólk vandi sig þegar kemur að því að klippa táneglur. 

„Ég sé mörg slæm tilvik sem eiga rætur að rekja til þess að fólk klippir ekki rétt táneglur sínar,“ segir Manal Oulad fótsnyrtifræðingur.

„Best er að klippa neglurnar beinar, þvert yfir. Forðast skal að klippa of neðarlega í kviku og of mikið út í hornin. Svo á að nota naglaþjöl til þess að fara yfir hornin svo að þau verði ekki of skörp. Nöglin á að vera eins kassalaga og hægt er.“

„Með þessum hætti er hægt að fyrirbyggja inngrónar neglur. Inngrónar neglur geta verið hvimleiðar og valdið sýkingum. Fyrsta merki um inngrónar neglur er roði og sársauki, sérstaklega við hornin. Húðin hefur farið yfir nöglina og valdið bólgum.“

„Gott er að taka bólgueyðandi og leggja fætur í bleyti í saltvatni til þess að minnka líkur á sýkingu.“

„Margir eiga það líka til að gleyma að þrífa fætur þegar þeir fara í sturtu. Það er mikilvægt að skrúbba vel fætur, á milli tánna og undir nöglum reglulega og passa að ekkert óhreint leynist þarna. Þá er gott að passa að þurrka vel á milli tánna áður en maður fer í sokka og bera krem á fæturna á kvöldin til þess að halda nöglunum mjúkum.“

Fræðingar mæla með að fólk noti einungis þar til gerðar naglaklippur sem eru beinar en ekki bognar og forðist skæri eins og heitan eldinn en skæri geta brotið neglurnar. Þá eru þröngir skór og hælaskór slæmir fyrir tærnar þar sem þeir auka á þrýsting sem getur valdið inngrónum nöglum.

mbl.is