Fengu hærra verð á strandveiðum í fyrra

Meðalverð þorsks var nokkuð hærra á fiskmörkuðum í fyrrasumar en …
Meðalverð þorsks var nokkuð hærra á fiskmörkuðum í fyrrasumar en síðastliðið sumar. Verð voru þó töluvert hærri bæði árin en árið 2021. mbl.is/Sigurður Ægisson

Svo virðist sem strandveiðibátarnir hafi fengið mun hærra verð fyrir óslægðan þorsk á síðasta ári en á þessu ári sé horft til meðalverðs á fiskmörkuðum landsins. Þá fékkst mun hærra verð fyrir slægðan þorsk í maí 2023 en í sama mánuði árið 2022, en í júní og júlí var verð örlítið lægra í ár en í fyrra.

Á þessu ári fengust 416 krónur í maí og 417 krónur í júní fyrir kíló af óslægðum þorski, en á síðasta ári fengust 467 krónur í maí og 476 krónur í júní. Í júlí síðastliðnum fengust 486 krónur og 436 krónur í júlí á síðasta ári, en með tilliti til afkomu strandveiðibáta verður að hafa í huga að veiðarnar voru stöðvaðar 12. júlí á þessu ári og 21. júlí í fyrra.

Sé litið til slægðs þorsks nam verð 478 krónur í maí síðastliðnum en var 380 krónur í sama mánuði í fyrra. Í júní og júlí á þessu ári var verð á slægðum þorski 419 krónur en þessa mánuði í fyrra var verð 423 og 422 krónur.

Mesta hækkun 91%

Það sem af er ári 2023 hefur verð á þorski á fiskmörkuðum verið nokkuð hærra en á síðasta ári en töluvert hærra en árið 2021. Munar mestu á meðalverði slægðs þorsks í apríl 2021 til sama mánaðar í ár og fékkst 91% meira fyrir kílóið í apríl síðastliðnum. Þá munaði 77% á slægðum þorski í febrúar 2021 og í sama mánuði þessa árs og var þessi munur 75% í mars.

Sé litið til óslægðs þorsks hafa verð hækkað minna og var mesta hækkunin milli febrúar 2021 og sama mánaðar á þessu ár, en hækkunin nemur 51%. Hins vegar hefur meðalverð óslægðs þorsks hækkað meira en slægðs í júlí og ágúst, en aðeins þrír söludagar eru að baki á fiskmörkuðum í ágúst á þessu ári og því getur sú staða breyst.

mbl.is