Heimsmeistaramót kvenna í fótbolta er nú í fullum gangi þar sem augu heimsins eru á þessum sterku og flottu konum.
Í tilefni þess tók Smartland saman nokkrar bíómyndir þar sem sterkar íþróttakonur eru í forgrunni.
Bend It Like Beckham hafði mikil áhrif á margar ungar stúlkur í upphafi aldarinnar. Myndin fjallar um Jess sem er af indverskum ættum og þráir ekkert heitar en að spila fótbolta. Þrátt fyrir mótbárur íhaldssamra foreldra hennar gengur hún til liðs við kvennalið bæjarins þar sem hún kynnist hinni frjálslyndu Jules og verður ástfangin af þjálfaranum sínum.
Er þetta myndin sem kom Keiru Knightley á kortið en Parminder Nagra og Jonathan Rhys-Meyers vöktu einnig verðskuldaða athygli fyrir hlutverk sín.
Bring It On virðist við fyrstu sýn kannski vera ekkert annað en enn ein unglingadramamyndin þar sem grunnhyggnin er í fyrirrúmi. Myndin hefur hins vegar fest sig í sessi sem ákveðin költmynd og á sér dyggan aðdáendahóp. Kirsten Dunst, Eliza Dushku og Gabrielle Union fara með aðalhlutverk myndarinnar.
Myndin fjallar um klappstýrulið í bandarískum menntaskóla sem kemst að því að fyrrverandi fyrirliði þeirra stal öllum dansrútínum liðsins frá keppinautum sínum. Liðið þarf því að finna nýja rútínu skömmu fyrir árlega meistaramótið svo það verði ekki rekið úr keppni.
Saga myndarinnar skiptist í fjóra hluta og táknar hver hluti mismunandi tímabil í lífi söguhetjanna, Monicu og Quincy. Þeim er fylgt í gegnum stormasamt samband þeirra allt frá því að þau voru börn og spilar körfuboltinn stóra rullu í söguþræðinum. Það sem gerir myndina frábrugðna mörgum öðrum rómantískum myndum er sú staðreynd að lögð er áhersla á sögu og frama kvenhetjunnar. Einnig eru efasemdir um hefðbundin kynhlutverk áberandi í myndinni. Sanaa Lathan og Omar Epps fara með aðalhlutverkin.
Þegar síðari heimsstyrjöldin ógnar úrvalsdeild Bandaríkjanna í hafnabolta, sannfærir einn eigandi Chicago Cubs sameigendur sína um að leggja fé í fyrstu kvennadeildina í hafnabolta. Myndin endurspeglar svo sannarlega í gegnum hafnabolta þær hindranir sem konur verða fyrir í sínu daglega lífi. Myndin er svo sannarlega stjörnum prýdd, en í leikkvennahópnum eru meðal annars Geena Davis, Madonna, Rosie O'Donnel og Tom Hanks.