Konur eldast hraðar á vissum tímabilum

Hormónar hafa mikil áhrif á það hvernig konur eldast. Hægt …
Hormónar hafa mikil áhrif á það hvernig konur eldast. Hægt er að sporna við hraðri öldrun með góðu matarræði. mbl.is

Vísindamenn hafa séð merki þess í rannsóknum sínum að konur eldast hraðar á vissum tímabilum í lífi þeirra.

Weiqi Zhang, sem leiðir hóp rannsakenda hjá Beijing Institute of Genomics í Kína, segir að ástæðan fyrir þessu séu líklega hormónar enda eru konur á þessum aldri oftar en ekki að eiga börn eða að ganga í gegnum breytingaskeiðið.

113 konur á aldrinum 20 til 66 ára tóku þátt í rannsókninni. Greind voru lífssýni og þær spurðar um matarræði og lífsstíl. Þá voru teknar myndir af andlitunum og þær mældar í bak og fyrir og blóðþrýstingurinn mældur sömuleiðis. Þá voru teknar blóðprufur og þvag- og saursýni svo fátt eitt sé nefnt.

Hollur matur gaf unglegra útlit

Niðurstöður leiddu í ljós að þær sem borðuðu yfirleitt hollan mat sem samanstóð af grænmeti og ávöxtum voru oftar en ekki „líffræðilega yngri“. Þá var eftir því tekið að konur á aldrinum 30 til 50 ára sýndu fram á hraðari öldrun.

Öldrun væri því að miklu leyti háð hormónabreytingum.

„Þessar niðurstöður gefa til kynna að öldrunarferli kvenna er að miklu leyti drifið áfram af hormónakerfinu,“ segir Zhang.

Hormónalyf hægðu á öldrun

Þátttakendur eldri en 45 ára sem voru einnig að taka inn hormónalyf við breytingaskeiðinu virtust eldast hægar en þær sem voru ekki á hormónalyfjum.

„Slík lyfjameðferð getur komið í veg fyrir að hormónin í líkamanum minnki of hratt og þar með hægt á öldrunarferlinu.“

Endurtaka þyrfti rannsóknina með stærra úrtaki til þess að fá áreiðanlegri niðurstöður sem mætti alhæfa út frá. Þá stendur einnig til að framkvæma svipaða rannsókn á karlmönnum og hvort öldrunarmynstur þeirra sé öðruvísi.

mbl.is