Nóg er að gera hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum vegna þjóðhátíðar. Allar fangageymslur voru fullar um stund og í fórum eins þjóðhátíðargestar fundust 40 grömm af kókaíni.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar.
Greint er frá því að vegna rigningar hafi færri verið í brekkunni í gærkvöldi og í nótt en gestum í fangageymslum fari fækkandi með morgninum.
Þá hafi fjórtán fíkniefnamál komið upp en í einu tilfelli hafi einstaklingurinn verið grunaður um sölu vegna þeirra 40 gramma af kókaíni sem að fundust í fórum hans.
„Eitt kynferðismál hefur verið tilkynnt lögreglu og rannsókn þess komin vel á veg. Tvær minniháttar líkamsárásir voru tilkynntar og einn aðili stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna,“ stendur í færslunni.