Hvernig hvíld þarftu?

Líkaminn þarf hvíld en fleiri en bara eina tegund hvíldar.
Líkaminn þarf hvíld en fleiri en bara eina tegund hvíldar. Ljósmynd / Getty Images

Samkvæmt lækninum Söndru Dalton-Smith þá eru hvíldarþarfirnar okkar mismunandi. Hvíldinni má skipta í sjö tegundir og við þurfum að njóta þeirra allra til þess að ná að lifa lífinu lifandi.

Mikilvægt er að bera kennsl á þá hvíld sem maður þarfnast mest og tileinka sér litlar daglegar breytingar til þess að ná að hvílast rétt.

Læknir á barmi kulnunar

„Sjálf var ég á barmi kulnunar og alltaf þegar ég fór að leita upplýsinga var eina áherslan lögð á að maður næði að sofa vel og sofa meira. Allir væru svefnvana. Það var því markmiðið mitt um tíma. Ég var alltaf að leita leiða til þess að bæta svefninn. Ég var komin á það stig að ég svaf vel í átta til níu klukkustundir allar nætur en samt vaknaði ég dauðþreytt. Þá rann upp fyrir mér ljós. Eitthvað vantaði. Það var ekkert að mér líkamlega. Það var eitthvað meira.“

„Þá fór ég að skoða hvernig maður skilgreinir hvíld og hvernig maður metur örmögnun. Maður þarf að vita hvað maður er að glíma við til þess að finna úrlausnina.“

Hvernig þreyta hrjáir þig?

„Margir skjólstæðinga minna koma til mín og segjast þreyttir. Það segir mér ekki neitt. Hvernig þreyttur ertu? Þá fór ég að taka eftir því að þreytuna má flokka í sjö flokka: líkamleg, andleg, hugsunarleg, tilfinningaleg, félagsleg, skynjunar- og sköpunarþreyta. Þegar ég var að byrja þurfti ég á hvíld að halda í öllum þessum flokkum en ég þurfti að byrja hægt og taka einn flokk fyrir í einu. Best er að byrja á þeim flokki sem er mest aðkallandi,“ segir Dalton-Smith.

1. Líkamleg hvíld

Þessi hvíld skiptist í virkan hluta og óvirkan. Sá óvirki er svefn, við þurfum góðan svefn. Líkamleg hvíld felst líka í að gera eitthvað eins og til dæmis jóga, teygja á vöðvum, fara í nudd og huga að líkamanum. Einkenni virkrar líkamlegrar þreytu eru til dæmis verkir eftir að hafa setið of lengi við skrifborðið.

2. Hugarhvíld

Þeir sem þurfa að hvíla hugann upplifa til dæmis að heilinn er á fleygiferð rétt fyrir svefninn. Eða fara í matvörubúð og gleyma öllu sem þau ætluðu að kaupa. Minnið og einbeitingin er úr skorðum. Í dag erum við að sjá ungt fólk á milli þrítugs og fertugs að glíma við erfiðleika við að leggja á minnið einföldustu hluti því heilinn er of upptekinn. Það er sífellt erfiðara að geyma upplýsingar.

3. Félagsleg hvíld

Við erum stöðugt í samskiptum við fólk sem tekur frá okkur orku á einn eða annan hátt. Hvort sem það er samstarfsfólk, börn, ættingjar, vinir eða makar. Allir þurfa eitthvað frá manni. 

Stundum þarf maður að stíga til baka og spyrja sig hvort þú sért alltaf sá sem ert að gefa af þér? Ertu að verja nógu miklum tíma með fólki sem krefst einskis af þér og þið eruð bara að njóta að vera saman? 

4. Andleg hvíld

Við þurfum að finna að við tilheyrum einhverju. Þeir sem finna fyrir kulnun hér gætu verið að mæta til vinnu án þess að finna fyrir tilgangi. Skiptir þetta einhverju máli? Ef maður finnur ekki fyrir tilgangi þá endum við í kulnun. Við þurfum að leita leiða til þess að tengjast, leggja okkar að mörkum og finna fyrir tilgangi t.d. í gegnum samfélagslega vinnu, menningu eða trú. 

5. Skynjun

Við getum verið viðkvæmari fyrir áreitum en við áttum okkur á. Það getur verið of mikið af skjám, símum og tölvupóstum í okkar nærumhverfi sem hefur áhrif á okkur til langs tíma litið. Þeir sem upplifa þetta eru oftast góðir í upphafi dags en eru svo pirraðir, uppstökkir og jafnvel reiðir í lok dags.

6. Tilfinningaleg hvíld 

Við þurfum að vera trú okkur sjálfum og einlæg í því hvernig við tjáum tilfinningar okkar. Margir bera harm sinn í hljóði og tala ekki um tilfinningar sínar. Einkenni þess að maður þarf að hvílast tilfinningalega er til dæmis það að finnast stöðugt þurfa að halda aftur af sér og mega aldrei segja það sem þér raunverulega finnst.

7. Sköpun

Sköpun snýr að meiru en bara list. Ef maður þarf að næra þennan hluta lífsins þá kemur það fram í því að maður á erfitt með að fá hugmyndir eða leysa vandamál.

mbl.is