Svona má fyrirbyggja verki í iljum

Stundum getur verið sársaukafullt að stíga í fæturna.
Stundum getur verið sársaukafullt að stíga í fæturna. mbl.is/Getty Images

Margir upplifa viðvarandi sársauka í iljum. Slíkt ástand er þekkt hjá hverjum þeim sem ver miklum tíma standandi. Oft er sársaukinn verstur á morgnana og margir hafa lýst honum eins og þeir stígi á steina.

Það eru þó til nokkrar leiðir til þess að draga úr þessum óþægindum.

„Iljarfellsbólga (plantar fasciitis) er þegar sinin sem tengir hælbeinið við tærnar bólgnar vegna ofálags,“ segir sjúkraþjálfarinn Paul Hobrough í viðtali við The Times. „Það eru ýmsir áhættuþættir sem geta ýtt undir þetta ástand eins og til dæmis að vera í ofþyngd sem eykur álagið á þessa sin. Þá eru þeir sem hafa flatari fætur í meiri áhættu að þróa með sér iljarfellsbólgu.“

Teygja kálfann

Hobrough segir mikilvægt að þeir sem þjást af iljarfellsbólgu forðist að ganga um berfættir og teygji á kálfunum alla daga til þess að minnka álagið á sinina umræddu. „Gott er að standa upp við vegg, setja annan fótinn fyrir framan hinn og beygja þannig að teygist á kálfanum. Halda í 45 sekúndur, skipta svo um fót og endurtaka sex sinnum á dag.“

Kreppa tær

„Það er hægt að koma í veg fyrir iljarfellsbólgu og draga úr verkjum með því að gera teygjuæfingar fyrir iljarnar. Gott er að sitja á gólfi með tærnar undir rassinum og teygja þannig á iljunum. Fyrst skal vera á fjórum fótum en svo teygja sig svo aftur þannig að sitji með rassinn á hælunum og tærnar undir. Fara skal hægt af stað ef sársaukinn er of mikill. Þetta skal gera daglega.“

Rúlla bolta undir iljarnar

„Það er gott að eiga lítinn bolta, golfbolta eða tennisbolta, til þess að mýkja iljarnar. Hægt er að sitja við skrifborðið í vinnunni og rúlla.“

mbl.is