Svörtum túristajeppa lagt uppi á gangstétt

Þessi svarta Chevrolet Suburban bifreið notaði gangstéttina sem bílastæði meðan …
Þessi svarta Chevrolet Suburban bifreið notaði gangstéttina sem bílastæði meðan ferðamenn fengu sér pylsu á Bæjarins bestu. Ljósmynd/Twitter

Miðbær Reykjavíkur iðar af lífi þessa dagana enda trekkir hann að ferðamenn frá öllum heimshornum. Það sem fer hins vegar fyrir brjóstið á íbúum borgarinnar er þegar ferðaþjónustufyrirtæki, og fólk almennt, virða ekki umferðarreglur eins og gerðist þegar svartri Chevrolet Suburban-bifreið var lagt uppi á gangstétt fyrir utan veitingastaðinn Brút.

Bíllinn er í eigu Icelimo Luxurytravel sem var á ferð með ferðamenn þegar myndin var tekin. Bílnum var lagt uppi á gangstétt í um 30 mínútur samkvæmt heimildum Ferðavefjarins. Bifreiðinni var lagt þarna svo ferðamennirnir gætu fengið sér pylsu á Bæjarins bestu. Staðurinn er vinsæll hjá ferðamönnum en því miður gleymdist að gera ráð fyrir því að pylsuelskandi fólk hefði ekki allt tileinkað sér bíllausan lífsstíl. 

Á heimasíðu Icelimo Luxurytravel kemur fram að allir bílstjórar sem starfa hjá fyrirtækinu séu sérstaklega þjálfaðir og með siðareglur á hreinu.

„Bílstjórar okkar eru vottaðir og sérstaklega þjálfaðir í réttum siðareglum viðskiptavina og akstursaðferðum. Þeir skuldbinda sig til þess að gæta friðhelgi einkalífsins,“ segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Ólafur Örn Steinunnar Ólafsson birti mynd af bílnum á Twitter og sagði: 

„Ég er á svörtum jeppa, ég má leggja þar sem ég vil!“

mbl.is