Ekki þörf á miklum tilfæringum í Mýrarhúsaskóla

Ástandið er mun skárra í Mýrarhúsaskóla en Valhúsarskóla.
Ástandið er mun skárra í Mýrarhúsaskóla en Valhúsarskóla. Ljósmynd/Seltjarnarnesbær

„Það er miklu vægara ástand í Mýrarhúsaskóla heldur en í Valhúsaskóla sem betur fer. Þannig að við erum að fá samskonar ráðleggingar frá fagfólkinu eins og við fengum á fundinum í síðustu viku vegna Valhúsaskóla,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar í samtali við mbl.is um rakaskemmdir og myglu í húsnæði Mýrarhúsaskóla.

Greint var nýverið frá því að bæjaryfirvöld Seltjarnarnesbæjar funduðu með stjórnendum Valhúsaskóla og sérfræðingum Eflu vegna myglu sem fannst í skólanum en samskonar fundur fór fram vegna mögulegrar myglu í Mýrarhúsaskóla.

Vægara en í hinu skólahúsnæðinu

„Þetta er töluvert mikið vægara en í hinu skólahúsnæðinu. Þannig að það er mjög jákvætt og við þurfum í raun ekki að gera miklar tilfæringar í Mýrarhúsaskóla en það eru þó nokkrir staðir sem við þurfum að kanna vel og gera úrbætur. Það verður farið beint í það um leið og verktaki fæst í verkefnið,“ segir hann.

Þá tekur Þór fram að næsta mál á dagskrá sé að upplýsa starfsfólk og foreldra. „Við viljum halda öllum upplýstum og gera þetta eins vel og mögulegt er á sem skemmstum tíma,“ bætir hann við. 

mbl

Engar breytingar á skólahaldi

Ekki er ljóst hversu langan tíma þetta komi til með að taka en þrifafyrirtæki verður sett í málið eins fljótlega og hægt er, að sögn Þórs. „Við getum gert eitthvað lítilsháttar sjálf en við þurfum stærri verktaka í stærri verkefni það er klárt mál“.

Aðspurður segir Þór að ekki þurfi að gera neinar breytingar á fyrirhuguðu skólahaldi og einungis þurfi tilfæringar innanhúss. Þá er ekki þörf á að loka neinum skólastofum bætir hann við. „Ég hef trú á að við getum gert þetta vel saman og í sátt og samlyndi við alla, það græðir enginn á neinum upphlaupum með þessi mál. Við þurfum að vanda til verka og gera þetta vel,“ segir hann.

mbl.is