Sophia Bush að skilja í annað sinn

Leikkonan Sophia Bush er að skilja í annað sinn.
Leikkonan Sophia Bush er að skilja í annað sinn. Samsett mynd

Bandaríska leikkonan Sophia Bush, sem er líklegast hve þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum One Tree Hill á árunum 2003-2012, er að skilja við Grant Hughes eftir rúmlega eins árs hjónaband. 

Bush og Hughes, sem er stofnandi FocusMotion Health, gengu að eiga hvort annað í júní 2022 eftir tæplega tveggja ára samband. Parið á engin börn. 

Fregnir af skilnaðinum koma aðeins sjö vikum eftir að leikkonan birti færslu á Instagram-reikningi sínum, en þar fór hún fögrum orðum um eiginmann sinn í tilefni af fyrsta brúðkaupsafmæli hjónanna. 

„Besta ákvörðun lífs mín. Hlaupum saman til framtíðar, brosandi og hlæjandi. Ég elska þig, uppáhaldið mitt. Til hamingju með brúðkaupsafmælið,“ skrifaði Bush við mynd af parinu. Færslunni hefur nú verið eytt. 

Leikkonan var áður gift hjartaknúsaranum Chad Michael Murray, en hjónabandið entist aðeins í fimm mánuði. 

mbl.is