TikTok-færsla leiddi til átaka við lögreglu

Skjáskot af færslunni fór í mikla dreifingu á samfélagsmiðlum og …
Skjáskot af færslunni fór í mikla dreifingu á samfélagsmiðlum og leiddi til þess að lögreglan þurfti að handtaka fjölda ungmenna við íþróttavöruverslunina JD. Samsett mynd

Lögreglan í Lundúnum handtók fjölda ungmenna eftir að átök brutust út á aðalverslunargötu Bretlands í gær.

Manngrúi hafði safnast fyrir utan íþróttavöruverslun eftir að myndband af samfélagsmiðlinum TikTok fór í dreifingu þar sem hvatt var til skipulagðs „ráns.“

Oxfordstræti er gjarnan talið vera fjölfarnasta verslunargata Evrópu. Sú verslun sem um ræðir kallast JD Sport. Margar búðir á Oxfordstræti þurftu að loka tímabundið á meðan lögregluþjónar reyndu að kljást við ungmennin.

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að níu manns hafi verið handteknir og þar á meðal er einn grunaður um að ráðast á lögregluþjón og annar um að vera „búinn undir þjófnað.“

Þarf að „elta uppi“ sökudólgana

Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, segir að það þurfi að „elta uppi“ sökudólgana.

„Við getum ekki leyft slíkri lögleysu, sem fyrirfinnst í sumum bandarískum borgum, að mæta á götur Bretlands,“ skrifar Braverman í færslu á samfélagsmiðlinum X, sem áður hét Twitter.

„Lögreglan hefur minn fyllsta stuðning til þess að gera það sem þarf til að halda allsherjarreglu.“

mbl.is