Lögreglan í Lundúnum handtók fjölda ungmenna eftir að átök brutust út á aðalverslunargötu Bretlands í gær.
Manngrúi hafði safnast fyrir utan íþróttavöruverslun eftir að myndband af samfélagsmiðlinum TikTok fór í dreifingu þar sem hvatt var til skipulagðs „ráns.“
Oxfordstræti er gjarnan talið vera fjölfarnasta verslunargata Evrópu. Sú verslun sem um ræðir kallast JD Sport. Margar búðir á Oxfordstræti þurftu að loka tímabundið á meðan lögregluþjónar reyndu að kljást við ungmennin.
Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að níu manns hafi verið handteknir og þar á meðal er einn grunaður um að ráðast á lögregluþjón og annar um að vera „búinn undir þjófnað.“
Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, segir að það þurfi að „elta uppi“ sökudólgana.
„Við getum ekki leyft slíkri lögleysu, sem fyrirfinnst í sumum bandarískum borgum, að mæta á götur Bretlands,“ skrifar Braverman í færslu á samfélagsmiðlinum X, sem áður hét Twitter.
„Lögreglan hefur minn fyllsta stuðning til þess að gera það sem þarf til að halda allsherjarreglu.“
Those responsible must be hunted down & locked up. I expect nothing less from the @metpoliceuk and have requested a full incident report. 2/2
— Suella Braverman MP (@SuellaBraverman) August 10, 2023