Helmingur skólans flytur í annað hverfi

Nemendur í 6.-10. bekk í Hólabrekkuskóla munu verja skóladögum sínum …
Nemendur í 6.-10. bekk í Hólabrekkuskóla munu verja skóladögum sínum í Korpuskóla í Grafarvogi. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Tæpur helmingur nemenda Hólabrekkuskóla í Breiðholti þarf að verja næstu skólaárum í Korpuskóla í Grafarvogi. Framkvæmdir vegna rakaskemmda munu standa yfir í húsnæði Hólabrekkuskóla næstu árin.

Það mun þó ekki hafa áhrif á skólasetningu sem fer óbreytt fram þann 22. ágúst, að sögn skólastjóra.

„Við vorum svo heppin að fá að fara yfir í Korpuskóla. Við erum í fjórum húsum og það er verið að taka tvö hús í gegn núna,“ segir Lovísa Guðrún Ólafsdóttir, skólastjóri Hólabrekkuskóla, í samtali við mbl.is. Bætir hún við að hin tvö húsin verði tekin í gegn seinna.

Þýðir það að um 240 nemendur verða færðir yfir í Korpuskóla tímabundið en í skólanum eru um 500 nemendur.

Nemendur í 6. til 10. bekk Hólabrekkuskóla munu því fara með rútum í Grafarvoginn alla virka morgna vikunnar. Nemendur í 1. til 5. bekk halda kyrru fyrir heima í Breiðholtinu.

Lovísa Guðrún Ólafsdóttir hefur verið skólastjóri Hólabrekkuskóla í um eitt …
Lovísa Guðrún Ólafsdóttir hefur verið skólastjóri Hólabrekkuskóla í um eitt og hálft ár. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Í öðru húsnæði á 50 ára afmæli skólans

„Þetta byrjaði síðasta haust. Það sprakk rör í kjallara í húsnæðinu og það myndaðist raki í einni álmunni. Í kjölfar þess voru fleiri rými skoðuð og það kom í ljós að það væru rakaskemmdir á fleiri stöðum og þá fór boltinn að rúlla,“ segir Lovísa, sem hefur verið skólastjóri Hólabrekkuskóla í eitt og hált ár.

„Það var bara komið að þeim tíma. Þetta er fimmtugasta skólaárið og þetta er húsnæði sem þarf viðhald.“

Taka við af Hagaskóla

Síðustu misseri hafa nemendur Hagaskóla verið í húsnæði Korpuskóla vegna framkvæmda sökum  rakaskemmda hafa staðið yfir í Hagaskóla. En nú fá Hagskælingar að snúa aftur í heimkynni sín í Vesturbænum, þar sem framkvæmdum á brátt að ljúka.

Tímasetningin er því afar heppileg fyrir Hólabrekkuskóla.

„Það var tekin ákvörðun í vor, að það ætti að fara í þessar framkvæmdir. Þá var Korpuskóli akkúrat að losna og það voru engin húsnæði í nágrenninu sem gátu verið góður kostur. Þá ákváðu svið Reykjavíkurborgar að við myndum fá Korpuskóla.“

Í ár er fimmtugasta starfsár skólans.
Í ár er fimmtugasta starfsár skólans. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Tekur líklegast nokkur ár

„Ég get ekki alveg sagt til um það,“ segir Lovísa, spurð hvenær framkvæmdum ljúki.

„Við erum bara að taka helminginn núna og svo tökum við hinn helminginn í framhaldinu. Það þarf að greina húsið sem að við erum í núna.

Það þarf að teikna upp á nýtt og hanna og svo er farið í framkvæmdir á því húsnæði. Það gæti kannski tekið um tvö til þrjú ár eftir því hvernig framkvæmdum miðar áfram.“

Nýr og flottari skóli í framkvæmd

Lovísa bætir við að gengið hafi vel að vinna með sviðunum og foreldrum að þessum tímabundnu breytingum. Skólinn hafi jafnvel boðið foreldrum upp á kynningu á húsnæði Korpuskóla í vor. Segir hún að nemendur og starfsfólk hafi tekið vel í þessar breytingar.

„Það skiptir máli að hafa jákvætt viðhorf gagnvart breytingunum og horfa á lokaniðurstöðuna, sem verður nýr og betri skóli,“ segir hún. „Þetta er búið að vera flott vinna og þær framkvæmdir sem gerðar hafa verið innanhúss hafa gengið mjög vel. Þau eiga hrós skilið fyrir það.“

mbl.is