Mygla hefur áhrif á skólastarf víða

Mygla hefur haft áhrif á skóastarf í Hagaskóla í Reykjavík. …
Mygla hefur haft áhrif á skóastarf í Hagaskóla í Reykjavík. Áhrifa myglu gætir í fleiri grunnskólum borgarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mygla hefur áhrif á skólastarf í þremur grunnskólum í Reykjavík á komandi vetri. Um er að ræða Hagaskóla, Hólabrekkuskóla og Langholtsskóla þar sem beita á mismunandi lausnum til að halda skólahaldi gangandi þrátt fyrir myglu og viðvarandi framkvæmdir.

Frestun og ferjanir nemenda

Í Hagaskóla er skólasetningu frestað um sex daga en hún átti að vera hinn 22. ágúst og hefur gámastofum verið komið fyrir á skólalóðinni til að geta haft alla nemendur skólans á sama stað.

Tæpur helmingur nemenda Hólabrekkuskóla í Breiðholti þarf að verja næstu skólaárum í Korpuskóla í Grafarvogi. Yfirstandandi framkvæmdir vegna rakaskemmda gera það að verkum að tvö af fjórum húsum skólans eru ónothæf næstu árin. Í skólanum eru um 500 nemendur en 240 nemendur sjötta til tíunda bekkjar þurfa að fara með rútum í Grafarvog alla virka morgna vikunnar til að sækja nám.

Mygla hefur greinst í Langholtsskóla og þurfa nemendur í níunda og tíunda bekk að ferðast í Ármúla til að stunda nám.

Flutningur leik- og grunnskólabarna í Reykjavík vegna myglu í skólahúsnæði.
Flutningur leik- og grunnskólabarna í Reykjavík vegna myglu í skólahúsnæði. Kort/mbl.is

Hagaskóli tilbúinn í október

Ómar Örn Magnússon skólastjóri Hagaskóla segir það hafa verið nauðsynlegt að fresta skólasetningu um tæpa viku til að gera viðeigandi ráðstafanir. Framkvæmdum við skólann átti að ljúka í sumar áður en skólahald hæfist, en nú er vonast til að framkvæmdum ljúki fyrir lok september.

Nemendur í Hólabrekkuskóla taka við af nemendum í Hagaskóla sem hafa verið í húsnæði skólans síðustu misseri og tímasetningin því afar heppileg fyrir Hólabrekkuskóla. „Það var tekin ákvörðun í vor um að það ætti að fara í þessar framkvæmdir. Þá var Korpuskóli einmitt að losna og það var ekkert húsnæði í nágrenninu sem þótti góður kostur,“ segir Lovísa Guðrún Ólafsdóttir skólastjóri Hólabrekkuskóla í samtali við Morgunblaðið.

Hvorki Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður skóla- og frístundasviðs, né Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, gáfu kost á viðtali við vinnslu fréttarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina