Grenntist með hjálp „töfralyfsins“

Grínleikarinn Tracy Morgan.
Grínleikarinn Tracy Morgan. mbl.is/AFP

Bandaríski grínistinn Tracy Morgan, sem margir þekkja úr Saturday Night Live og 30 Rock, játaði á dögunum að hafa lést um þónokkur kíló og að magaummálið hefði minnkað töluvert eftir að hafa byrjað að taka „töfralyfið“ Ozempic. Lyfið er sykursýkislyf en sjálfur er Morgan greindur með sykursýki II.

Morgan var í viðtali í NBC-þættinum Today Show, þar sem hann ræddi meðal annars um þyngdartap sitt. „Ég tek Ozempic á hverjum fimmtudegi,” útskýrði Morgan, 54 ára, sem sagðist vera á lyfinu einungis til þess að léttast.

Morgan greindist með sykursýki II árið 1996, en leikarinn hefur barist við áfengisfíkn og aukakíló í mörg ár.

Grínistinn er einn af mörgum Hollywood-stjörnum sem hafa viðurkennt að hafa notfært sér lyfið til að grennast hratt. Amy Schumer og Chelsea Handler hafa báðar játað að hafa nýtt sér grenningarmátt lyfsins.

mbl.is