Runólfur hleypur í skarðið fyrir dóttur sína

Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans hleypur í skarðið fyrir dóttur sína.
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans hleypur í skarðið fyrir dóttur sína. mbl.is/Arnþór

Það var ekki á planinu hjá Runólfi Pálssyni forstjóra Landspítalans að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Þegar kom í ljós að dóttir hans, Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir nýrnalæknir, gæti ekki hlaupið ákvað Runólfur að hlaupa í skarðið fyrir hana.

Hrafnhildur er dóttir Runólfs og Ragnheiðar Linnet söngkonu, blaðamanns og prófarkalesara sem starfar á Alþingi. Þegar hún komst að því að hún væri barnshafandi og gæti ekki hlaupið var faðir hennar ekki lengi að bregðast við. 

Hrafnhildur hafði ætlað að hlaupa fyrir Nýrnafélagið og mun Runólfur taka við þeim bolta. Hægt er að heita á hann á hlaupastyrkur.is. Markmið hans var að safna 50.000 krónum en hann er búinn að ná markmiðinu og var komin í 74.000 kr. þegar fréttin fór í loftið.

Markmið Nýrnafélagsins er að styðja alla nýrnasjúka og aðstandendur þeirra og einnig að stuðla að forvörnum til að hægja á nýrnabilun. Nýrnafélagið vinnur að því að allir nýrnaveikir fái bestu meðferð sem er í boði hverju sinni. Hjá félaginu fást upplýsingar um sjúkdóma í nýrum og meðferð við þeim. Fréttabréf er gefið út og haldnir eru fræðslu- og skemmtifundir. Tengslahópur nýrnasjúkra og aðstandenda þeirra veitir þeim sem veikjast stuðning. Einnig er starfræktur hópur foreldra nýrnasjúkra barna í tengslum við Umhyggju. Félagið býður upp á tíma hjá fjölskyldufræðing gjaldfrjálst ásamt handleiðslu einkaþjálfara sem sérhæfir sig í hreyfingu nýrnasjúkra.

mbl.is