Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á ríkisstjórn Íslands og ríkisfyrirtækin Landsvirkjun, Landsnet og Rarik að marka stefnu um að störf í orkuvinnslu á Íslandi verði staðsett á landsbyggðinni og að höfuðstöðvar orkufyrirtækjanna verði fluttar til suðurlands.
Sveitarstjórnin skorar á hlutaðeigandi að marka stefnu um að flytja höfuðstöðvar orkufyrirtækja í eigu ríkisins í nærumhverfi orkuframleiðslunnar og skapa öfluga starfsaðstöðu og forsendur klasasamstarfs, þekkingarmiðstöðva og rannsóknarsetra víða um land, allt tengt grænni orku.
Í áskorun sinni vísar sveitarstjórnin til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem sérstaklega er tekið fram að:
Segir í áskoruninni að orkuvinnsla á Íslandi eigi sér að megninu til stað á landsbyggðinni og að sú stefna sem rekin hefur verið í uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi að hafa höfuðstöðvar stærstu orkufyrirtækja landsins allar á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að engin orkuvinnsla eigi sér stað þar gangi ekki lengur.
Landsvirkjun sé stærsti framleiðandi rafmagns hér á landi og í eigu ríkisins. Landsnet sé með sérleyfi um flutning á öllu rafmagni á Íslandi og sé í eigu ríkisins. Rarik sjái um dreifingu á rafmagni á landsbyggðinni og sé í eigu ríkisins. Verðmætasköpun og starfsemi fyrirtækjanna eigi sér stað á landsbyggðinni en stór hluti starfanna sé staðsettur á höfuðborgarsvæðinu, þá sérstaklega verðmætustu störfin.
Orkuskipti séu framundan með tilheyrandi stækkun raforkukerfisins sem og uppbygging sem mun fjölga störfum verulega, skapa jarðveg fyrir fjölmörg tækifæri og mikla nýsköpun tengdri grænni orku.
„Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á ríkisstjórn Íslands að beina þeim tilmælum til stjórnar Landsvirkjunar, stjórnar Landsnets og stjórnar Rarik að hefja stefnumótun til framtíðar þar sem höfuðstöðvar fyrirtækjanna verði í nærumhverfi orkuvinnslunnar. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps skorar á stjórn Landsvirkjunar, stjórn Landsnets og stjórn Rarik að hafa frumkvæði að því að móta stefnu til framtíðar um að störf í orkuvinnslu verði byggð upp í nærumhverfi orkuvinnslunnar og höfuðstöðvar verði fluttar til suðurlands þar sem stærsti hluti raforkuframleiðslu Íslands á sér stað,“ eins og segir í áskoruninni.